Kostnaður við fyrsta áfangann er um 35 milljarðar króna en fullbúin mun landeldisstöð Samherjan á Reykjanesi kosta um 95 milljarða króna.
Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Samherja hf., upplýsti í erindi á Sjávarútvegsdeginum, árlegum fundi Deloitte, Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi og Samtaka atvinnulífsins, að fyrsta skóflustungan að landeldi Samherja á Reykjanesi verði tekin 15. nóvember.
Þetta kemur fram á vefsíðu Samherja þar sem farið er yfir helstu atriðin í erindi Baldvins á Sjávarútvegsdeginum. Þar gerði hann grein fyrir helstu verkefnum Samherja á komandi árum.
Kostnaður áætlaður 95 milljarðar
„Stærsta einstaka verkefnið er uppbygging landeldis á Reykjanesi sem er spennandi tækifæri. Við sjáum að viðskiptavinir okkar vilja fjölbreytt vöruframboð og laxinn er orðinn stærsta varan í flestum löndum,“ er haft eftir Baldvini á samherji.is.
„Við viljum og teljum nauðsynlegt að bjóða þeim að kaupa lax, sem er lykillinn í áframhaldandi uppbyggingu félagsins. Skóflustungan að fyrsta áfanga landeldisstöðvar Samherja fiskeldis á Reykjanesi verður tekin 15. nóvember.
Kostnaður við fyrsta áfangann er um 35 milljarðar króna en fullbúin mun landeldisstöðin á Reykjanesi kosta um 95 milljarða króna. Við þurfum sömuleiðis að endurnýja skipaflotann og auka þar með verðmætasköpun og minnka kolefnissporið,“ sagði Baldvin á Sjávarútvegsdeginum.
Meira en allur hagnaðurinn í fjárfestingar
Einnig kemur fram að á síðustu fimm árum hafi Samherji Ísland og Samherji fiskeldi varið meira en eitt hundrað prósentum hagnaðar í fjárfestingar beint í rekstri félaganna. Fjárfest hafi verið í nýjum skipum, vinnsluhúsum og tækjabúnaði. Árið 2020, þegar Samherji vígði nýtt vinnsluhús á Dalvík, fór hlutfallið upp í 145 prósent.
Nánar er hægt að lesa um fjárfestingarnar á samherji.is
Heimild: Vb.is/fiskifrettir.is