Home Fréttir Í fréttum Áætla kostnað 5,3 milljarða

Áætla kostnað 5,3 milljarða

60
0
Borgarstjórn samþykkti í fyrra að endurnýja húsið og stækka. mbl.is/sisi

Heild­ar­kostnaður vegna breyt­inga og end­ur­bóta á Gróf­ar­húsi er áætlaður krón­ur 5.324.528.640.

<>

Minn­is­blað, dag­sett 8. októ­ber sl., var kynnt á síðasta fundi menn­ing­ar- og íþróttaráðs Reykja­vík­ur. Þar kem­ur fram að nýtt kostnaðarmat sé í loka­vinnslu hjá Eflu verk­fræðistofu og fyrstu töl­ur sýni að verk­efnið sé inn­an þeirra marka sem lagt var upp með og samþykkt var 22. júní í borg­ar­stjórn í fyrra, eða 5,3 millj­arðar króna.

Efla ætl­ar að fram­kvæmda­kostnaður verði 4.159.788.000 kr. og kostnaður við hönn­un og verk­efna­stjórn krón­ur 1.164.740.640. Fram kem­ur í kynn­ing­unni að við stjórn verk­efn­is­ins hafi at­huga­semd­ir verði tekn­ar inn snemma í ferl­inu til að koma í veg fyr­ir dýr mis­tök síðar.

Hönn­un­art­eymið JVST hafi lagt mik­inn metnað í að ná að end­ur­nýta það sem hægt er og út­færi það á áhuga­verðan hátt í upp­færðri hönn­un. Hol­lenska fyr­ir­tækið BOOT hafi gert út­tekt og í kjöl­farið unnið 400 blaðsíðna skýrslu þar sem fram kem­ur hvað hægt er að end­ur­nýta og end­ur­vinna úr nú­ver­andi hús­næði.

Full­trú­ar meiri­hluta­flokk­anna í menn­ing­ar- og íþróttaráði bókuðu að hönn­un Gróf­ar­húss væri í spenn­andi far­vegi. Sér­stak­lega var hrósað fyr­ir öfl­ugt not­enda­sam­ráð, mikla áherslu á end­ur­nýt­ingu og fag­leg vinnu­brögð þar sem m.a. hönn­un væri stöðugt upp­færð út frá kostnaðarmati. Þá væri stefnt að grænni fjár­mögn­un.

Ann­ar tónn var í bók­un full­trúa Sjálf­stæðis­flokks­ins. „Þegar Borg­ar­bóka­safn, Borg­ar­skjala­safn og Ljós­mynda­safn Reykja­vík­ur fluttu í Gróf­ar­hús um síðustu alda­mót, var ráðist í mikl­ar og kostnaðarsam­ar end­ur­bæt­ur á hús­inu í þágu safn­anna. Gróf­ar­hús þjón­ar hlut­verki sínu vel og er því ekki brýn þörf fyr­ir al­gera og fok­dýra umbreyt­ingu á hús­inu eins og meiri­hluti Sam­fylk­ing­ar, Fram­sókn­ar­flokks, Pírata og Viðreisn­ar stefn­ir að,“ bókuðu þeir.

Furðu sætti að slík fram­kvæmd væri sett í for­gang vegna erfiðrar fjár­hags­stöðu Reykja­vík­ur­borg­ar og upp­safnaðrar viðhalds­skuld­ar sem næmi tug­um millj­arða króna.

Heimild: Mbl.is