Home Fréttir Í fréttum Sigla með krana til Færeyja og heim aftur því þjóðvegabrýr þola ekki...

Sigla með krana til Færeyja og heim aftur því þjóðvegabrýr þola ekki þunga

163
0
Brúin yfir Jökulsá á Fjöllum er komin til ára sinna og þolir ekki mikla þungaflutninga. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Kranafyrirtæki á Austurlandi fær ekki að aka krana sínum heim úr verkefni á Vestfjörðum vegna þess hve brýr á þjóðvegum landsins eru orðnar lélegar. Setja þarf kranann á skip og sigla með hann til Færeyja og heim aftur með miklum tilkostnaði.

<>

Brýr á þjóðvegi eitt eru orðnar svo gamlar og sprungnar að ekki fæst undanþága til að aka með þungan krana milli landshluta. Í staðinn þarf að sigla með kranann til Færeyja og aftur heim.

Fengu undanþágu í vor en ekki eftir sumarið
Fyrirtækið Kranar ehf. var að störfum í Súðavík í sumar og flutti í vor öflugan 58 tonna krana frá Eskifirði fyrir austan vestur á firði. Sækja þarf um undanþágu til að fara með svo þung tæki yfir sumar brýrnar á þjóðvegi eitt og fékkst undanþágan í vor.

Nú þarf kraninn að komast til baka og fengust undanþágur til að flytja hann á vagni í Þorlákshöfn en ekki lengra.

Fyrirtækið fékk þau svör frá Vegagerðinni að sprungur hefðu uppgötvast í brúm, bæði á norðurleiðinni austur og suðurleiðinni og því fengjust undanþágurnar ekki.

Bíður á hafnarkantinum í Þorlákshöfn
Í Þorlákshöfn er kraninn kominn á svokallað fleti sem verður notað til að setja hann um borð í skip og mun fyrirtækið Smyril Line sigla með kranann til Færeyja. Þar verður hann svo settur um borð í ferjuna Norrænu sem siglir með hann aftur til Íslands, nema þá til Seyðisfjarðar. Þar með verður kraninn kominn austur á land til síns heima.

Hjá Vegagerðinni fengust þær upplýsingar að þegar þessi krani væri kominn á vagn og aftan í bíl væri ækið orðið mun þyngra en flest annað sem beðið er um undanþágur fyrir. Brýrnar yfir Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá á Breiðamerkursandi þoli slíkt illa.

Ekki í fyrsta skipti sem ráðast þarf í forfæringar
Í mars var fjallað um vandræði við að flytja þennan sama krana til Fáskrúðsfjarðar en þá mátti hann ekki fara yfir brúna yfir Sléttuá í Reyðarfirði sem er gömul og sprungin. Þótti mönnum mikið bras að þurfa að aka með kranann langt upp með á og fara þar yfir á vaði, sem þurfti að laga með gröfu til að yrði fært.

Dýr Færeyjakrókur
Nú má segja að keyri um þverbak í vandræðum við að koma stórum og þungum vinnuvélum milli byggðarlaga. Mikill kostnaður og mengun hljótast af því að sigla svo langar leiðir með viðkomu í Færeyjum til að koma einu tæki milli landshluta á Íslandi. Eyjólfur Skúlason hjá Krönum ehf. segist í samtali við fréttastofu ekki vita hvað þessi Færeyjakrókur eigi eftir að kosta – nema hann muni kosta mikið, fyrir utan tafir.

Heimild: Ruv.is