Hafrannsóknarstofnun gagnrýnir fyrirhugaða efnistöku þýska námurisans Heidelberg af hafsbotni út fyrir Landeyjarhöfn. Heidelberg minnkaði ætlaða efnistöku eftir gagnrýni. Þetta breytir hins vegar ekki mati Hafró um framkvæmdina.
Hafrannsóknarstofnun leggst enn gegn fyrirhugaðri efnistöku þýska sementsfyrirtækisins Heidelberg af hafsbotni við Landeyjar.
Stofnunin gerir þetta þrátt fyrir að Heidelberg hafi minnkað fyrirhugaða efnistöku í kjölfar gagnrýni fyrr á árinu. Þetta kemur fram í nýrri umsögn Hafrannsóknarstofnunar um efnistökuna. Umsögnin var birt fimmtudaginn 26. september. Stofnunin kallar framkvæmdina „stórskala“ og án fordæma hér á landi.
Hafrannsóknarstofnun telur enn ríka áherslu til þess að staðið sé vörð um umrætt svæði.
Í umsögninni segir meðal annars að þrátt fyrir að Heidelberg hafi minnkað efnisnámið úr 80 milljón rúmmetrum og niður í 60 þá breyti það ekki stóru myndinni í málinu.
„En breytingarnar breyta litlu sem engu varðandi neikvæð áhrif á afkomu fiska og annarra lífvera sé ekki stoppað á hrygningartíma. Þó geta breytingarnar haft þau áhrif að rof á strönd verði eitthvað minna eða í það minnsta hægara.
Þrátt fyrir að framkvæmdaraðili leggi til minni efnistöku er framkvæmdin enn ósjálfbær og afstaða Hafrannsóknarstofnunar því óbreytt.“
Þessi framkvæmd Heidelberg hefur vakið verulega athygli síðustu mánuði. Til stendur að taka efni af hafsbotni sem flutt verður beint erlendis eða það malað í ætlaðri verksmiðju þýska félagsins í Ölfusi.
Bæði verksmiðjan sjálf og efnistakan fyrirhugaða eru umdeildar framkvæmdir. Stjórnvöld í Vestmannaeyjum hafa meðal annars gagnrýnt framkvæmdina harðlega.
Fyrri úrskurður: Slæm áhrif á fiskistofna
Þessi niðurstaða Hafró er í samræmi við fyrri umsögn stofnunarinnar. Hafrannsóknarstofnun kallaði efnisnámið þá „fordæmalausa framkvæmd“ í fyrri úrskurði sínum í maí á þessu ári.
Stofnunin sagði að efnisnámið gæti haft slæm áhrif á fiskistofna sem hrygna á svæðinu. Þessi gagnrýni er enn þá rauði þráðurinn í umsögninni sem nú hefur verið birt.
Hafrannsóknarstofnun sagði í vor að áhrifin á fiskistofna við Íslandsstrendur, til dæmis þorsk og uppsjávarfiska eins og loðnu og síld, gætu orðið slæm.
Í úrskurðinum sagði orðrétt: „Innan fyrirhugaðra efnistökusvæða við Landeyjar eru hrygningarstöðvar og uppeldissvæði nytjastofna. […]
Eins og fram hefur komið getur efnistaka af hafsbotni á þessu svæði raskað mikilvægum búsvæðum, uppeldissvæðum og hrygningarsvæðum margra helstu nytjafiska Íslendinga. Þegar efnið af hafsbotninum er fjarlægt fara hrogn, seiði, fiskar og önnur dýr með sandinum í dæluskipið.“
Stofnunin lagðist alfarið gegn framkvæmdinni og sagði meðal annars: „Um er að ræða fordæmalausa framkvæmd m.t.t. umfangs á efnisnámi hér við land.“
Í úrskurðinum nú segir Hafró: „Hafrannsóknarstofnun telur enn ríka áherslu til þess að staðinn sé vörður um umrætt svæði.“
Haft var samband við Þorstein Víglundsson, talsmann Heidelberg á Íslandi, og óskað eftir viðbrögðum hans við niðurstöðu Hafró. Viðbrögð Þorsteins höfðu ekki borist þegar fréttin var birt.
Heimild: Ruv.is