Home Fréttir Í fréttum Öryggi í kringum húsgrunnana við Skólaveg verður tryggt

Öryggi í kringum húsgrunnana við Skólaveg verður tryggt

67
0
Mynd: Austurfrett.is

Fjarðabyggð hefur samið við núverandi eiganda húsgrunnanna að Skólavegi 98-112 á Fáskrúðsfirði um að girða af og tryggja öryggi í kringum grunnana. Íbúasamtök staðarins kalla eftir að gripið verði inn í pattstöðu sem varað hefur síðan árið 2007.

<>

Fyrsta skóflustungan að byggingunum var tekin sumarið 2006 og áttu að marka tímamót í sögu byggingasögu Fáskrúðsfjarðar með mikilli aukningu íbúðahúsnæðis þar.

Verktakinn lenti fljótt í vanda og í hátt á annan áratug hefur engin hreyfing verið í kringum grunnana sem áttu að vera orðnir að fullbúnum húsum árið 2007.

Það var Fjárfestingafélag Austurbyggðar sem fékk lóðirnar en samið var um hluta væntanlegra íbúða við Leigufélagið Híbýli. Fjárfestingarfélagið fékk einnig lóðir beint á móti, við Hlíðargötu 68-82. Alls voru þetta 26 lóðir fyrir allt að 50 íbúðir í einbýlis-, par- og raðhúsum. Í fyrsta áfanga átti að byggja 16 íbúðir í raðhúsum við Skólaveg.

Fjárfestingafélagið var stofnað vorið 2006 og skilaði ársreikningi það ár og árið á eftir. Í þeim seinni eru grunnarnir bókfærðir á 102 milljónir króna en fasteignamat á lóðunum er rúmar sjö milljónir.

Félagið var loks úrskurðað gjaldþrota árið 2013 en skiptum lauk árið 2018. Móðurfélag þess, BKR ehf., varð hins vegar gjaldþrota strax í október 2008. Leigufélagið var einnig að fullu í eigu BKR.

Árin 2017 og 18 var lagt að þáverandi eiganda grunnanna að koma málum aftur á skrið. Var því heitið að grunnarnir yrðu orðnir að húsum haustið 2018 en af því varð aldrei.

Væntanlegar íbúðir voru auglýstar til sölu um stutta stund í byrjun árs 2022. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá voru byggingarnar seldar um sumarið á 60 milljónir króna.

Vilja að sveitarfélagið leysi grunnana til sín

Grunnarnir hafa verið Fáskrúðsfirðingum þyrnir í augu, bæði sem minning um brostnar áætlanir en líka lýti á bænum og mögulegt hættusvæði. Íbúasamtök Fáskrúðsfjarðar komu málinu á hreyfingu á ný síðsumars með erindi til Fjarðabyggðar.

Þar segir að grunnarnir séu lýti á bænum og þeir standi uppfullir af trjágróðri. Varað er við hættu á svæðinu, þar sem plötur sem voru fyrir dyrum og gluggum hafi verið losaðar eða fjarlægðar og netagirðing við svæðið fallið að hluta. Handan götunnar er leiksvæði ætlað börnum.

Íbúasamtökin segja að í kringum grunnana sé komin upp „óásættanleg pattstaða“ og allt útlit sé fyrir að húsin verði aldrei kláruð þótt húsnæði skorti á Fáskrúðsfirði, sem víðar um Austfirði. Íbúasamtökin skora þess vegna á sveitarfélagið að fjarlægja grunnana og endurskipuleggja svæðið.

Mynd: Austurfrett.is

Fjarðabyggð brást við erindinu með að senda núverandi eigendum grunnana tilmæli um að girða þá af og loka.

Samkvæmt upplýsingum frá Fjarðabyggð varð það úr að eftir samtal við núverandi eiganda að sveitarfélagið gengi í að tryggja öryggi á svæðinu, gegn greiðslu frá honum.

Skipulags- og framkvæmdanefnd samþykkti tilhögunina í síðustu viku og stendur til að ganga fljótt í verkið. Sveitarfélagið hefur áfram heimild í mannvirkjalögum til að beita dagsektum ef ekki er brugðist við tilmælum.

Heimild:Austurfrett.is