Gunnar Sverrir Harðarson, löggiltur fasteignasali hjá fasteignasölunni Remax, segir tilboði hafa verið tekið í tíu íbúðir á Grandatorgi í Vesturbæ Reykjavíkur. Fyrir höfðu selst 12 íbúðir og hafa því selst 22 íbúðir. Sala íbúðanna hófst í ágúst.
Alls eru 84 íbúðir á Grandatorgi. Reiturinn samanstendur af þremur fjölbýlishúsum: Hringbraut 116 (45 íbúðir), Sólvallagötu 79 (35 íbúðir) og Sólvallagötu 69 (4 íbúðir).
Gunnar Sverrir segir aðspurður að félag hafi lagt fram tilboð í íbúðirnar tíu en hann sé að öðru leyti bundinn trúnaði um viðskiptin.
Spurður um fasteignamarkaðinn segir hann að gangurinn sé svipaður og verið hefur. Þess sé beðið að Seðlabankinn byrji að lækka vexti.
Ríflega 20 hópar mættu
„Það væri kærkomið fyrir alla að fá vaxtalækkunarferli í gang. Fyrsta sölusýningin fór fram síðustu helgi og þá komu rúmlega 20 hópar að skoða íbúðirnar. Þetta er því allt á réttri leið,“ segir Gunnar Sverrir.
Hagstætt verð eigi þátt í áhuganum á íbúðunum á Grandatorgi.
Fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins að REIR verk hefði selt um fjórðung íbúða á Grandatorgi. Hið rétta er að REIR verk er verktaki á reitnum en ekki eigandi bygginganna.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í gær.
Heimild: Mbl.is