Home Fréttir Í fréttum 30.09.2024 Hjúkrunarheimili á Patreksfirði, viðbygging og breytingar á eldra húsnæði – Markaðskönnun

30.09.2024 Hjúkrunarheimili á Patreksfirði, viðbygging og breytingar á eldra húsnæði – Markaðskönnun

140
0
Frá Patreksfirði. EGILL AÐALSTEINSSON

Afmörkun verkefnis

<>

Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir(FSRE) stefnir að því að hefja framkvæmdir vegna viðbyggingar við hjúkrunarheimilið á Patreksfirði ásamt endurbótum á heilsugæslunni á Patreksfirði á næsta ári.

Óskað er eftir upplýsingum frá áhugasömum aðilum á markaði, t.a.m. byggingaraðilum, verkfræðingum, arkitektum og öðrum ráðgjöfum, þ.e. frá öllum þeim sem hafa áhuga á að koma að hönnun og/eða framkvæmd þessarar viðbyggingar og endurbóta. Einnig er óskað eftir upplýsingum frá sömu aðilum um hvernig þeir telja skynsamlegast að nálgast útboðið og verkefnið.

Upplýsingabeiðni þessi er gerð á grundvelli 45. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 og felur ekki í sér skuldbindingu til að semja við ákveðna aðila eða fylgja ráðleggingum þeirra.

Um verkefnið

Áætlað umfang framkvæmda er um 1,3 milljarður.

Markmið verkefnisins er að uppfylla kröfur stjórnvalda um lágmarksviðmið um byggingu og starfsemi hjúkrunarheimila sem felur m.a. í sér einstaklingsrými, herbergi með einkabaðherbergi, fyrir alla íbúa hjúkrunarheimila.

Húsnæði Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða (HVEST) á Patreksfirði er gamalt sjúkrahús og er eldri hluti þess byggður 1944, teiknaður af Guðjóni Samúelssyni en yngri hluti þess er frá 1974, teiknaður af Jóni Haraldssyni.

Lítið bakhús var byggt við húsið norðaustan megin sem upprunalega hýsti líkhús, þvottahús og matargeymslu. Gera skal ráð fyrir að sá hluti verði rifinn, sökum lélegs ástands (um 80 m²). Í heild er núverandi bygging um 1.886 m² að stærð (brúttó). Húsnæðið skiptist í þrjár hæðir: jarðhæð, 1. hæð og 2. hæð.

Hlutverk húsnæðisins hefur þróast og breyst í gegnum árin. Meginhlutverk þess er að standa fyrir heilsugæslu, slysa- og bráðamóttöku fyrir sitt nærumhverfi, en sjúkrahússtarfsemin hefur þróast æ meir í að verða hjúkrunarheimili.

Þörf er á að bæta núverandi ástand hjúkrunarheimilisins og færa það í nútímalegt horf sem samræmist gildandi viðmiðum, fyrir íbúa, starfsfólk og aðstandendur, m.a. með því að breyta tví- og þríbýlum í einbýli.  Gert er ráð fyrir 11 hjúkrunarrýmum með einkabaðherbergi og stoðrýmum, s.s. sjúkrabílskýli og sjúkrastofur.

Til að hætta notkun á fjölbýlum á hjúkrunarheimilinu þarf að afleggja núverandi tví- og þríbýli og útbúa 11  einbýli í stað þeirra.

Auk þess þarf að bæta aðstöðu heimilisins svo úr verði heildstæð 11 rýma hjúkrunarheimiliseining. Koma þarf fyrir tveimur sjúkrarýmum í góðri tengingu við hjúkrunarrýmin, þar sem starfsfólk er samnýtt á milli stofnanna, þó sjúkrarýmin tilheyri sjúkrastofnun en hjúkrunarrými eru heimili einstaklinga.

Lögð er áhersla á að þessi ólíka starfsemi og hlutverk geti verið vel samræmd í hönnun húsnæðisins. Einnig þarf að endurgera hæðir hússins að innan að verulegu leyti auk endurbóta utanhúss á eldra hluta hússins (gluggaskipti og utanhússklæðning).

Áætlað er að rif verði um 80 m², endurgerð húsnæðis um 1.250 m² og ofaná- og viðbygging um 420 m². Tölur eru settar fram með fyrirvara um endanlega útfærslu.

Markmið

Með þessari markaðskönnun er lagður grundvöllur að árangursríku útboði, sem muni leiða til skilvirkrar og hagkvæmrar hönnunar og framkvæmdar. Er það vilji FSRE að útboðið og framkvæmd verði árangursrík fyrir verkkaupa, notendur, hönnuði og framkvæmdaraðila.

Ferlið

Fyrsta skrefið í þessu ferli er að kanna með markaðskönnun þessari framboð af hönnuðum (verkfræðingum og arkitektum) og byggingaverktökum sem hafa áhuga á verkefninu, og óska eftir upplýsingum frá markaðnum um framboð þeirrar þjónustu sem óskað er eftir. Að markaðskönnun lokinni verður ákveðið ferli og aðferðafræði við útboðið.

Spurningar til áhugasamra fyrirtækja

Þess er óskað að slík fyrirtæki svari eftirfarandi spurningum:

  1. Hvert er nafn fyrirtækisins og kennitala, og nöfn samstarfsfyrirtækja og kennitölur ef við á?
  2. Hvaða útboðsform telur fyrirtækið/in líklegast til árangurs í þessu verkefni, og afhverju?
  3. Hvaða hæfiskröfur telur fyrirtækið/-in eðlilegt og heppilegt að gera við val á fyrirtækjum, sem eiga að veita ofangreinda þjónustu?
  4. Vill fyrirtækið/-in koma einhverjum öðrum upplýsingum eða athugasemdum á framfæri í tengslum við verkefnið?

Fyrirspurnir um verkefnið Hjúkrunarheimilið á Patreksfirði skulu sendar á netfangið gudmundur.moller@fsre.is. Ef tilefni er til, mun FSRE mögulega hafa samband við þá sem svara þessari könnun.

Fyrirspurnarfrestur rennur út 23. september 2024 en svarfrestur er til og með 26. september 2024.

Þess er óskað að svör berist Framkvæmdasýslunni- Ríkiseignum(FSRE) á netfangið gudmundur.moller@fsre.is  eigi síðar en kl. 8:00 mánudaginn 30. september 2024.

Merkja skal svörin; nr. 6087050 – Hjúkrunarheimili á Patreksfirði, viðbygging og breytingar á eldra húsnæði.

Sjá frekar.