Innviðafélag Vestfjarða sendi í síðustu viku frá sér ályktun þar sem lýst var yfir miklum vonbrigðum með stöðu framkvæmda á Dynjandisheiði.
„Innviðafélag Vestfjarða lýsir mjög miklum vonbrigðum og furðu yfir fréttum af stöðu framkvæmda á Dynjandisheiði, nú þegar aðeins sjö kílómetra vantar upp á að bundið slitlag verði yfir heiðina alla. Vegagerðin svarar því einu að fjármagn skorti og ekkert verði aðhafst í bili,“ segir í ályktuninni.
Þá er það rakið að verið sé að ljúka við annan áfanga á Dynjandisheiði og að þar með sé komið bundið slitlag á um 24 af 31 kílómetra. Því er aðeins þriðji áfangi eftir, um sjö kílómetra kafli.
„Þar fólst loforð til Vestfirðinga“
„Að því loknu verður loksins komið bundið slitlag milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða. Gera má ráð fyrir að kostnaður við þennan síðasta kafla sé um 1,5 milljarðar króna,“ segir í ályktuninni.
Árið 2020 samþykkti Alþingi samhljóða Samgönguáætlun 2020-2034 þar sem gert var ráð fyrir að ljúka við vegagerð á heiðinni árið 2024 en í lok ályktunarinnar segir:
„Um þetta var eining og þar fólst loforð til Vestfirðinga að vegi yfir Dynjandisheiði yrði loks komið í betra horf með bundnu slitlagi.
Það er með miklum ólíkindum að ekki eigi að standa við ákvörðun Alþingis og ljúka við þessa örfáu kílómetra sem eru eftir á Dynjandisheiði líkt og lofað var.“
Heimild: Mbl.is