Home Fréttir Í fréttum Gatnaframkvæmdir hafnar í Vatnsendahvarfi

Gatnaframkvæmdir hafnar í Vatnsendahvarfi

117
0
Á myndinni eru frá vinstri Bjarki Már Gunnarsson Kópavogsbæ, Atli Már Þorgrímsson og Lea Steinþórsdóttir Ljósleiðaranum, Sigurður Bjarki Rúnarsson eftirlitsmaður frá Versa, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Árni Geir Eyþórsson eigandi Jarðvals.

Framkvæmdir við jarðvinnu og lagnir í Vatnsendahvarfi eru hafnar. Til að halda upp á áfangann tók bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir fyrstu skóflustungu að götunni Hæðarhvarfi. Árni Geir Eyþórsson, eigandi Jarðvals sem sér um jarðvegsvinnu í Vatnsendahvarfi, var Ásdísi innan handar við skóflustunguna sem tekin var með beltagröfu.

<>

„Það er virkilega gaman að sjá að hér eru framkvæmdir komnar á fulla ferð, það ríkir mikil eftirvænting í Kópavogi eftir að fá nýtt hverfi í bæinn. Vatnsendahvarfið er vel staðsett á afar fallegum útsýnisstað,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.

Um er að ræða 1,1 milljarða króna framkvæmd sem felur í sér lagnir og jarðvinnu undir gatnagerð í Vatnsendahvarfi, nýju hverfi á Vatnsendahæð í Kópavogi.

Uppbygging húsa og mannvirkja getur hafist þegar gatna- og lagnagerð er lokið en verkið er unnið í áföngum í samræmi við lóðaúthlutanir Kópavogsbæjar. Fyrsta úthlutun var í júní og var þá um að ræða fjölbýlishúsalóðir. Að jarðvinnu lokinni verður lokafrágangur gatna, svosem malbikun, gangstéttir og opin svæði boðin út.

Auk fulltrúa Kópavogbæjar voru viðstaddir skóflustunguna fulltrúar frá Ljósleiðaranum en Ljósleiðarinn, Veitur og Míla eru verkkaupar að 15% verksins en hlutur Kópavogsbæjar eru 85%.

Heimild: Kopavogur.is