Home Fréttir Í fréttum Vilja „straum­línu­laga“ eigna­safnið og ná betri arð­semi

Vilja „straum­línu­laga“ eigna­safnið og ná betri arð­semi

96
0
Gunnar Þór Gíslason, framkvæmdastjóri Langasjós, tók sæti í stjórn Eikar í mars síðastliðnum Ljósmynd: Aðsend mynd

Langi­sjór leggur til breytingar á fram­tíðar­á­ætlunum Eikar. Fé­lagið vill m.a. skoða upp­byggingu og út­leigu í­búðar­hús­næðis til al­mennings að nor­rænni fyrir­mynd.

<>

Langi­sjór, sem ný­verið gerði yfir­töku­til­boð í allt hluta­fé Eikar, hefur í hyggju að straum­línu­laga eigna­safn fé­lagsins, eftir at­vikum með sölu eigna, í því skyni að ná fram betri heildararð­semi fjár­festinga­safnsins.

And­virði slíkra eigna verður nýtt til arð­greiðslu til hlut­hafa eða endur­kaupa á eigin hlutum en Langi­sjór leggur til að Eik verði eftir­leiðis arð­greiðslu­fé­lag sem greiði hlut­höfum ár­lega arð­greiðslu sem sam­svarar að jafnaði ekki lægra hlut­falli en 75% af hand­bæru fé frá rekstri næst­liðins árs.

Sam­kvæmt á­ætlunum fé­lagsins verður stefnt að því að auka skuld­setningu til að auka arð­semi eigin fjár fé­lagsins án þess þó að stefna fjár­hags­legum stöðug­leika þess í hættu.

Langi­sjór leggur einnig til að hlé verði gert á frekari upp­byggingu Eikar á safni at­vinnu­eigna og að könnuð verði kost­gæfni þess að Eik sinni upp­byggingu og út­leigu í­búðar­hús­næðis til al­mennings að nor­rænni fyrir­mynd.

Fé­lagið vill einnig að á­herslum í fast­eigna­þróunar­verk­efnum Eikar verði breytt á þann veg að fé­lagið ein­beiti sér ein­göngu að þróun fast­eigna­verk­efna til endur­sölu í að­draganda byggingar­fram­kvæmda. Langi­sjór telur einnig nauð­syn­legt að endur­skoða rekstur Eikar til að auka ráð­deild og arð­semi rekstrarins.

Langi­sjór keypti í lok ágúst um sex milljón hluti í Eik á­samt því að taka við 442 milljón hlutum af dóttur­fé­lagi sínu Brim­görðum. Til­boðs­skylda myndaðist í kjöl­farið en fé­lagið mun senda hlut­höfum og Kaup­höllinni til­boðs­yfir­lit á föstu­daginn.

Sam­kvæmt til­boðinu býður Langi­sjór hlut­höfum 11 krónur á hlut sem greiðast með reiðu­fé. Dagsloka­gengi Eikar á föstu­daginn var 10,9 krónur en gengið hefur verið á bilinu 9 til 10 krónur síðast­liðna sex mánuði en rauk upp í 11 um miðjan ágúst.

Langi­sjór er í eigu syst­kinanna Eggerts Árna, Guð­nýjar Eddu, Gunnars Þórs og Hall­dórs Páls Gísla­barna sem oft eru kennd við heild­verslunina Mata.

Eignir Langa­sjós námu 110 milljörðum króna í árs­lok 2022 sam­kvæmt síðasta birta árs­reikningi fé­lagsins. Eigið fé Langa­sjós var um 27,6 milljarðar og eigin­fjár­hlut­fallið var um 25%.

Langi­sjór á meðal annars leigu­fé­lagið Ölmu, Mata og sæl­gætis­gerðina Freyju.

Gildis­tími yfir­töku­til­boðsins er fjórar vikur og hefst á föstu­daginn. Hlut­hafar hafa því til há­degis þann 18. októ­ber til að svara.

Heimild: Vb.is