Umhverfisstofnun hefur að undanförnu rannsakað magn PCB-mengunar í eggjum og silungi á Heiðarfjalli og í Eiðisvatni á sunnanverðu Langanesi og er niðurstaðna að vænta í haust.
Mikið magn spilliefna er á Heiðarfjalli en þar var starfrækt ratsjár- og fjarskiptastöð Bandaríkjahers á árunum 1957-1970.
Rannsókn norsku stofnunarinnar Norwegian Geotechnical Institute (NGI), sem Umhverfisstofnun (UST) fékk til að framkvæma frumrannsókn á menguninni á Heiðarfjalli í fyrra, leiddi í ljós að þrávirka efnið PCB, blý, asbest og olíuefni „eru til staðar í styrk langt umfram viðmiðunarmörk.
Mengunin er staðbundin við svæðið í kringum ratsjárstöðina og ruslahauginn við hana ásamt því að dreifast með grunn- og yfirborðsvatni til suðurs,“ eins og sagði í frétt UST.
Framkvæmdir við hreinsunina geti hafist sumarið 2025
Í kjölfarið fór fram áhættumat sem sýndi m.a. að fiskur á svæðinu inniheldur PCB í magni langt umfram þolanleg mörk daglegrar neyslu.
Beðið er eftir niðurstöðum UST og eiga tillögur að hreinsiaðgerðum á og við fjallið að liggja fyrir snemma á næsta ári að því er fram kom í skýrslu umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um hreinsun Heiðarfjalls til Alþingis í júní sl.
Gert er ráð fyrir að þá hefjist einnig útboð fyrir hreinsunina svo framkvæmdir geti hafist næsta sumar. Ljóst er að hreinsun getur orðið mjög umfangsmikil og kostnaðarsöm.
Bíða með óþreyju
Sveitarstjórn Langanesbyggðar og landeigendur hafa beðið með óþreyju eftir að fá svör og upplýsingar um mótvægisaðgerðir vegna mengunarinnar á Heiðarfjalli og ekki síst að fá leiðbeiningar til landeigenda um á hverju þeir mega eiga von varðandi sölu afurða, um veiði í vötnum, hvar reka má fé á fjall o.fl.
Fól sveitarstjórn sveitarstjóra á fundi í júní að fylgja málinu fast eftir og krefja stofnanir um svör við spurningum sem lagðar hafa verið fyrir Umhverfisstofnun og MAST.
Umfjöllunina má nálgast í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is