Rúmlega sex af hverjum tíu nýbyggingum sem auglýstar voru til sölu á höfuðborgarsvæðinu á fyrri hluta árs eru óseldar. Aðeins 15 prósent af heildarframboði nýbygginga eru auglýst eða seld undir 65 milljónum króna.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef HMS, en upplýsingarnar eru unnar úr fasteignaauglýsingum og kaupskrá fasteigna. Þar segir að margar þeirra nýbygginga sem ekki hafa selst séu miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu.
„Á tímabilinu janúar til júlí var 1.911 nýbygging auglýst til sölu, en þar af seldust 714 íbúðir. Á kortinu hér að neðan má sjá söluhlutfall nýbygginga eftir götuheitum, en þar sést að í flestum tilvikum eru einungis 25 til 50 prósent íbúða seldar í hverri götu,“ segir í tilkynningunni og vísað í gagnvirkt kort þar sem sjá má söluhlutfall nýbygginga eftir götuheitum.
Gögnin byggja á ayglýsingum frá 1. janúar síðastliðnum til 1. júlí síðastliðins af síðunni fasteignir.is, og gögnum um kaupsamninga á tímabilinu 1. janúar til dagsins í dag frá kaupskrá. HMS þótti áreiðanlegast að hafa tveggja mánaða bil á milli auglýstra og seldra eigna þar sem oft tekur langan tíma að þinglýsa kaupsamning.
Dýrast á Seltjarnarnesi og niðri í bæ
Meðalverð seldra nýbygginga er 88 milljónir króna á tímabilinu og meðalverð auglýstra nýbygginga er 93 milljónir. Aðeins 15 prósent nýbygginga eru auglýst eða seld á undir 65 milljónir.
„Í Hafnarfirði, eða póstnúmerinu 221, eru flestar nýbyggingar auglýstar til sölu, eða um 496 talsins, þar sem 133 íbúðir hafa verið seldar.
Að meðaltali er verð þessara íbúða 77 m.kr., sem er eitt lægsta meðalverðið á meðal póstnúmera á höfuðborgarsvæðinu. Ódýrustu nýbyggingarnar má finna í Grafarholtinu þar sem meðalverðið er 65 m.kr.
Dýrustu nýbyggingarnar eru staðsettar á Seltjarnarnesi og miðbæ Reykjavíkur eða í póstnúmerum 101, 102 og 170. En þar er meðalverð nýbygginga í kringum 115 m.kr. Um 60 prósent seldra nýbygginga hafa selst á auglýstu kaupverði, 14 prósent yfir auglýstu kaupverði og 26 prósent undir auglýstu kaupverði.“
Heimild: Visir.is