Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Viðgerð á Borgum á Akureyri – Mygla á öllum hæðum

Viðgerð á Borgum á Akureyri – Mygla á öllum hæðum

103
0
Verið er að skoða ytra byrði í kringum gluggana á Borgum og laga skemmdir til að koma í veg fyrir að vatn komist inn í bygginguna. Í framhaldinu verður allt sýkt efni fjarlægt innan úr byggingunni. Mynd: Akureyri.net

Reiknað er með því að framkvæmdir á Borgum standi yfir fram yfir áramót. Mygla fannst í húsnæði Fiskistofu í vor en þegar betur var að gáð var myglu að finna víðar í húsinu.

<>

Fiskistofa flutti frá Borgum um miðjan apríl og er nú í bráðabirgðarhúsnæði að Hafnarstræti 97. Þegar byrjað var að skoða húsnæði Fiskistofu kom í ljós að myglu var víðar að finna í húsinu sem hýsir t.d. hluta af starfssemi Háskólans á Akureyri, Náttúrufræðistofnun Íslands, Matís, Umhverfisstofnun og fleiri.

Vinna í gangi við ytra byrði
„Við framkvæmdir við rými Fiskistofu komu í ljós rakaskemmdir og mygla við útveggi. Í framhaldi af því fengum við Eflu Verkfræðistofu til að taka töluvert magn af sýnum á öllum hæðum.

Flest sýni komu vel út en nokkuð var um sýni sem sýndu töluverða myglu eða vísbendingar um að mygla væri byrjuð að myndast. Þetta var sýnilega verst á ákveðnum hliðum hússins og alltaf bara við útvegg,” segir Jón Kolbeinn Guðjónsson, framkvæmdastjóri framkvæmda hjá Reitum, sem á húsið.

Þessa dagana er verið að skipta um ytra byrðið á einni hlið hússins en framkvæmdir hafa einnig verið í gangi innanhúss með tilheyrandi raski.

„Við erum því að skoða ytra byrði í kringum gluggana og laga skemmdir til að koma í veg fyrir að vatn komist inn í bygginguna. Í framhaldinu munum við svo fjarlægja allt sýkt efni innan byggingarinnar og lagfæra.

Myglan fannst á öllum hæðum en á mjög takmörkuðu svæði þannig við einbeitum okkur að þessum svæðum og að laga húsið þannig að það verði í lagi. Það er ekki alveg ljóst hvenær þessum framkvæmdum lýkur en við vonumst til að það verði snemma árs 2025 í síðasta lagi.

Þetta hefur auðvitað mismikil áhrif á aðila í húsinu, sumir eru mjög viðkvæmir fyrir myglu og auðvitað fylgir öllum framkvæmdum rask, svo sem hávaði og ryk. Við vinnum alltaf náið með leigutökum í svona aðstæðum til að tryggja að þetta hafi sem minnst áhrif,” segir Jón Kolbeinn.

Plöstuð húsgögn á göngum Borga. Framkvæmdunum hefur fylgt töluvert rask á starfssemi þeirra sem aðstöðu hafa í húsinu. Mynd: Akureyri.net

Myglan fannst á öllum hæðum en á mjög takmörkuðu svæði þannig við einbeitum okkur að þessum svæðum og að laga húsið þannig að það verði í lagi. Það er ekki alveg ljóst hvenær þessum framkvæmdum lýkur en við vonumst til að það verði snemma árs 2025 í síðasta lagi.

Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri. Mynd: Akureyri.net

Tilraunastofurnar í forgang
Að sögn Áslaugar Ásgeirsdóttur, rektors Háskólans á Akureyri, hafa framkvæmdirnar á Borgum vissulega haft áhrif á starfsemi skólans í haust.

Færa hefur þurft starfsfólk til innanhúss og á milli bygginga, og einnig hafa sumir kosið að vinna heima í bili. „Við lögðum áherslu á það að framkvæmdir á tilraunastofunum okkar, sem eru á fyrstu hæð, yrðu settar í forgang í sumar, enda er það starfsemi sem erfitt er að flytja til.

Mér skilst að framkvæmdir séu á áætlun, en það hefur vissulega verið púsl að finna út úr því hvert fólk hefur átt að fara því það er ekkert mikið af lausu húsnæði hér. Við erum með mjög öflugt aðgerðarteymi sem hefur skipulagt þessa vinnu og boðið fólki upp á lausnir,“ segir Áslaug og bætir við að það hafi verið aðdáunarvert hversu þolinmótt starfsfólk og nemendur skólans hafi verið í þessu ástandi.

„Húsnæðisvandinn hefur líka haft áhrif á byggingu nýs hermiseturs, sem er grundvöllur fjölgunar hjúkrunarfræðinema. Þetta er forgangsatriði hér í skólanum sem og hjá stjórnvöldum, en erfiðlega gengur að fá lausn á staðsetningu setursins í núverandi ástandi.“

Heimild: Akureyri.net