Home Fréttir Í fréttum Auka fjármagn og hraða undirbúningi Fljótaganga

Auka fjármagn og hraða undirbúningi Fljótaganga

52
0
Jarðgöngin myndu stytta leiðina úr Fjallabyggð í vesturátt um 14 kílómetra. En það er ekki aðeins styttingin sem skiptir máli, heldur er það mikið öryggisatriði að fá jarðgöng sem leystu af hólmi þennan erfiða veg um Almenninga. RÚV – Andrea María Sveinsdóttir

Stjórnvöld hafa flýtt rannsóknum fyrir jarðgöng undir Siglufjarðarskarð. Sveitarstjóri í Fjallabyggð segir veginn um Almenninga fyrir löngu orðinn hættulegan.

<>

Þrjátíu milljónum verður varið í að undirbúa gerð jarðganga í Fjallabyggð sem myndi leysa af hólmi veg um Almenninga. Vegurinn hefur farið illa í veðrum og jarðhreyfingum undanfarin ár og er talinn hættulegur vegfarendum.

Undanfarin ár hefur reglulega verið fjallað um veginn um Almenninga, sem nær frá Strákagöngum við Siglufjörð og yfir í Fljót, vegna grjóthruns og hreyfinga á fjallshlíðinni sem ber veginn uppi.

Mælingar hafa sýnt að vegurinn hefur síðustu ár sigið stöðugt nær sjó. Stjórnendum í Fjallabyggð hefur lengi ekki litist á blikuna og sagt veginn stórhættulegan vegfarendum.

„Vegurinn er bara á fleygiferð fram í sjó“
Sigríður Ingvarsdóttir, sveitarstjóri í Fjallabyggð, segir veginn hafa farið illa enn eina ferðina í vatnsveðri í ágúst.

„Það varð mikið hrun þar og sá vegur er bara á fleygiferð, fram í sjó“, segir Sigríður.

Hún segir stjórnvöld hafa tekið undir með heimafólki nýverið, sem hefur talað fyrir jarðgöngum í stað vegarins.

30 milljónir og undirbúningi lokið 2026
Nú hefur Svandís Svarsdóttir, innviðaráðherra, úthlutað 30 milljónum til undirbúnings verkefnisins sem sveitastjórnarfólk tekur fagnandi.

„Til að geta farið af stað með alvöru rannsóknir og undirbúning fyrir jarðgangnagerð og það er náttúrulega eina varanlega lausnin, að koma með Fljótagöng. Þannig við getum aflagt þessum kafla um Almenningana.“

Stjórnvöld hafa flýtt undirbúningi og rannsóknum og aukið fjármagn til verksins frá því sem ætlað var í Samgönguáætlun.

Nú er stefnt að því að borun fyrir jarðgöng geti hafist árið 2026.

Heimild: Ruv.is