Home Fréttir Í fréttum Vegagerðin lítur rútubrunann alvarlegum augum

Vegagerðin lítur rútubrunann alvarlegum augum

33
0
Rútan er rústir einar eftir brunann. Aðsend mynd – Haukur Sigurðsson

Rútan sem brann við Vestfjarðagöng fyrir helgi var í samfloti með fjórum öðrum rútum. Hátt í 300 farþegar voru um borð. Mjög illa hefði geta farið ef kviknað hefði í inni í göngunum.

<>

Mikil mildi þykir að rútan sem kviknaði í á föstudaginn skyldi ekki hafa verið inni í Vestfjarðagöngunum þegar eldurinn kom upp. Aðstoðarslökkviliðsstjórinn á Ísafirði sagði í fréttum í gær að hann vildi ekki hugsa þá hugsun til enda hefði eldurinn kviknað í einbreiðum göngunum.

Rútan var um mjög stutt frá gangamunnanum Ísafjarðarmegin þegar eldurinn kom upp. Bílstjóri, leiðsögumaður og 59 farþegar úr skemmtiferðaskipi björguðu sér út. Rútan var ekki gömul, aðeins fimm ára og ekin um 200 þúsund kílómetra.

Á þriðja hundrað farþega í einu í göngunum
Rútan hafði ekið um göngin í fimm rútu hópi með farþega af skemmtiferðaskipi. Hún var önnur í röðinni. Ætla má að samtals á þriðja hundrað farþega hafi verið um borð í rútunum.

„Við lítum á þetta mjög alvarlegum augum og hefði getað farið mjög illa hefði kviknað í rútunni inni í göngunum sjálfum,“ segir Bergþóra Kristinsdóttir framkvæmdastjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar.

Flótti getur orðið ómögulegur
Göngin eru 9,1 kílómetra löng. 7,2 kílómetrar þeirra eru einbreið. Óvinnandi vegur er að snúa við rútu í göngunum nema þá á gatnamótunum.

Göngin eru þröng og þegar eldur kemur upp fyllast göngin fljótt af reyk og dregur hratt úr súrefni. Blásarakerfi er í göngunum til að blása reyk út. Ekki er ráðlegt að nota það þegar eldur logar því það magnar reykinn og getur gert flótta ómögulegan.

Safna gögnum og rýna í þaula
„Við fórum strax í að safna gögnum og upplýsingum og aðeins búin að rýna en munum klára rýnina okkar eftir helgi með þá viðeigandi aðilum,“ segir Bergþóra.

Í október í fyrra kviknaði í fólksbíl í tvíbreiðum Hvalfjarðargöngunum. Reykur í rútu í einbreiðum Vestfjarðagöngum hefði orðið miklu meiri.
Viðbragðsáætlanir eru til fyrir öll jarðgöng. Uppfærð viðbragðsáætlun fyrir Vestfjarðagöng sem unnið hefur verið að í nokkra mánuði verður tilbúin á næstu vikum.

Hvað er brýnast að gera til þess að bæta ástand í V-göngum?
„Auðvitað myndum við vilja hafa þau breiðari og fleiri útskot og snúningssvæði. Það er meiri þörf fyrir fleir eftirlitsmyndavélar og fleiri skynjara. Við munum einnig uppfæra það sem er kallað áhættumat þar sem verið er að reyna að draga fram líkindi á að einhverjir atburðir verði og hversu miklar afleiðingar af þeim geta orðið.“

Heimild: Ruv.is