Home Fréttir Í fréttum Beina kröfum til Vegagerðarinnar vegna leiðarvals nýrrar Lagarfljótsbrúar

Beina kröfum til Vegagerðarinnar vegna leiðarvals nýrrar Lagarfljótsbrúar

57
0
Mynd: Austurfrett.is

Við hönnun veglínu nýrrar brúar yfir Lagarfljótið verður að hafa að leiðarljósi að það hafi ekki hamlandi áhrif á uppbyggingu í Fellabæ og ef nauðsynlegt reynist að kljúfa þéttbýlið þar áfram verði settar upp göngubrýr og eða undirgöng til að tryggja öryggi vegfarenda.

<>

Þetta er meðal þess sem fram kemur í innra vinnuskjali umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings vegna hönnunar veglínu fyrir nýja brú yfir Lagarfljótið en þar er ráðið að vinna í samvinnu við Vegagerðina. Ný brú yfir fljótið er á dagskrá á árunum 2034 til 2038 samkvæmt gildandi samgönguáætlun ríkisins.

Þörfin á nýrri brú er orðin nokkuð brýn enda hluti af þjóðveginum kringum landið. Núverandi brú var endurbyggð árið 1958 en töluvert eldri er stór hluti stauraundirstaða brúarinnar sem settir voru niður árið 1905.

Austurfrétt óskaði eftir aðgangi að vinnuskjalinu sem ekki var veitt en þó fengust upplýsingar um helstu atriði sem þar koma fram.

Þau eru:

A) Mikilvægt er að við skoðun og hönnun veglína verði einnig horft til nýrrar tengingar við Borgarfjarðarveg um Eyvindará.

B) Við hönnun og samanburð leiða nýs hringvegar í Fellabæ skal hafa að leiðarljósi að vegurinn hafi ekki hamlandi áhrif á uppbyggingu þéttbýlisins til framtíðar.

C) Komi upp sú staða að nýr þjóðvegur muni áfram þvera og kljúfa þéttbýlið í tvennt er mikilvægt að öryggi óvarinna vegfarenda verði tryggt, t.d. með göngubrú eða undirgöngum sem verði hluti af framkvæmdinni.

D) Gera þarf grein fyrir því hvernig umferð gangandi og hjólandi vegfarenda verða um nýja Lagarfljótsbrú. Skoða skal fýsileika þess að slíkar samgöngur fari um gömlu brúna þegar hún hefur verið aflögð fyrir akandi umferð.

E) Skoða skal fýsileika þeirrar veglínu sem tekin var til umfjöllunar á 116. fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs.

Heimild: Austurfrett.is