Þeir sem leggja leið sína í miðbæ Reykjavíkur þurfa ósjaldan að þræða hjáleiðir vegna framkvæmda. Þessi mynd var tekin nýverið við gamla Hlemmtorg, en þar var lengi vel þungamiðjan í rekstri strætisvagna borgarinnar.
Hefur Strætó nú tímabundið flutt sig á Skúlagötu.
Hlemmur mun taka miklum breytingum á komandi misserum, en búið er að skipuleggja svæðið upp á nýtt og verður umbreytingin gerð í nokkrum áföngum.
Á meðal þess sem til stendur að gera er að leggja nýtt yfirborðsefni á götuna við Hlemm, setja upp set- og leikaðstöðu og koma fyrir gróðurbeðum. Þá verður einnig lagður nýr hjólastígur meðfram svæðinu og með honum má tengja Hverfisgötu og Laugaveg upp að Bríetartúni.
Nýja Hlemmsvæðið verður einnig vettvangur götulistar, en Klyfjahestur Sigurjóns Ólafssonar listamanns verður þó áfram í aðalhlutverki.
Heimild: Mbl.is