Home Fréttir Í fréttum Nýtt byggingasvæði við Lónsá í Hörgársveit Lóðir fyrir tæplega 40 íbúðir verða...

Nýtt byggingasvæði við Lónsá í Hörgársveit Lóðir fyrir tæplega 40 íbúðir verða í boði

50
0
Lónsbakki í Hörgársveit. Mynd: Vikubladid.is

Góður gangur er í byggingu íbúða í Lónsbakkahverfinu í Hörgársveit en þar hefur fjöldi íbúða verið reistur undanfarin ár. Íbúar í hverfinu eru um 340 talsins um þessar mundir.

<>

Unnið er að því að skipulegga ný svæði til að unnt verði að bæta við lóðum undir nýjar íbúðir. Eins hefur áhugi fyrir að byggja á Hjalteyri aukist og lóðum þar verið úthlutað.

Nú síðar í haust lýkur skipulagferli sem verið hefur í gangi um skeið varðandi íbúðalóðir fyrir einbýlis- og fjölbýlishús í landi Lónsár þar sem áður var ferðaþjónustulóð.

Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri segir að fyrir áramót verði ákveðið hvenær þær lóðir verði tilbúnar til byggingar en gert er ráð fyrir allt að 40 íbúðum á því svæði sem gætu rúmað um 100 íbúa.

„Það er líkt og áður mikil ásókn í byggingalóðir og þá einkum á Lónsbakka, þar sem þéttbýli hefur byggst hratt upp. Það bjuggu ríflega 100 manns á svæðinu þegar hafist var handa við að skipuleggja nýjar lóðir fyrir 5 árum síðan.

Frá þeim tíma hafa verið byggðar 110 nýjar íbúðir og íbúar nálgast það að verða um 350,“ segir Snorri. Hann efast ekki um að mikill áhugi verði fyrir nýja svæðinu líkt og þeim sem áður hafa verið í boði.

Lóðum úthlutað á Hjalteyri

Um 50 manns búa á Hjalteyri, öðrum byggðarkjarna inna Hörgársveitar. Þar hafa um skeið verið í boði lóðir, bæði á eyrinni sjálfri og eins í götunum ofan hennar.

Lítill áhugi var framan af fyrir þeim lóðum en nú nýverið hafa allmargar lóðir gengið út, m.a. fyrir fjögur einbýlishús og fjögur hús á eyrinni, auk þess sem sumarhúsalóðum hefur verið úthlutað „Það er ánægjulegt að áhugi fyrir Hjalteyri varð allt í einu nokkur og búast má við byggingu nýrra húsa á næstu misserum,“ segir Snorri.

Heimild: Vikubladid.is