Home Fréttir Í fréttum Leggja burðarlag á Vestfjarðaveg í Dölum

Leggja burðarlag á Vestfjarðaveg í Dölum

27
0
Nokkurra kílómetra langur kafli í Miðdölum hefur verið malarvegur síðan hann skemmdist mikið þegar frost fór úr jörðu í vor. skjáskot – Gréta Sigríður Einarsdóttir

Unnið er að viðgerðum á Vestfjarðavegi um Dali en hann hefur verið án bundins slitlags síðan í vor. Staða vegakerfisins er einna verst á Vestursvæði.

<>

Langir vegkaflar á Vesturlandi og Vestfjörðum eru í slæmu ástandi. Skemmdir sem urðu til þess að slitlag var fjarlægt í Dölum og Reykhólasveit gæti verið lagt aftur næsta vor.

Sementsblandað burðarlag á að þola þungaflutninga
Starfsfólk Vegagerðarinnar vinnur nú að því að laga þessa kafla sem eru búnir að vera malarvegir síðan í vor. Sementsblandað burðarlag á að þola þungaflutningana sem þurfa að fara hér um.

Haukur Árni Hermannsson, eftirlitsmaður Vegagerðarinnar á Vestursvæði segir viðgerðir á veginum ganga vel. „Það er verið að sementsfesta veginn, það er að segja blanda ákveðnu magni af sementi í burðarlag vegarins til að auka styrkinn.“ Sementið á að styrkja burðinn í veginum svo hann þoli umferð og þungaflutninga til og frá Vestfjörðum.

Fjárveitingum háð hvað verður hægt að laga næsta sumar
Þegar vinnu lýkur verður búið að laga verstu kaflana í bili. Birgitta Rán Ásgeirsdóttir, deildarstjóri hönnunar hjá Vegagerðinni segir þó enn langt í land að vegurinn í heild sinni verði ásættanlegur.

„Við ætlum að nota veturinn núna í að kortleggja það sem er þá verst á þessum köflum sem eftir eru. Við ætlum að reyna að undirbúa það vel þannig að við séum tilbúin að fara af stað snemma næsta vor. Það er þó fjárveitingum háð, hvað það koma miklir peningar og hvað við getum gert mikið fyrir þá.“

Vestfjarðavegur um Dali og sunnanverða Vestfirði er meðal þeirra sem þarf að huga að. Slæmir vegir á Snæfellsnesi Vegir á Sunnanverðu Snæfellsnesi eru mjóir og ósléttir og burðurinn farinn. „Þetta eru þeir staðir sem maður hefur svona mestar áhyggjur af að vegirnir hrynji,“ segir Birgitta. „Ef að við náum að halda holumyndun í lágmarki þá getum við náð að halda veginum góðum fram á næsta vor.“

Mesta hættan á skemmdum er þegar frost fer úr jörðu. Þar sem langir kaflar eru í slæmu ástandi þarf að fylgjast grannt með vegum í Dölum, sunnanverðum Vestfjörðum og Snæfellsnesi. Vegarkaflar sem eru slæmir núna verða ekki endilega þeir verstu næsta vor.

Ástandið einna verst á Vesturlandi og Vestfjörðum
Birgitta segir ástandið núna einna verst á Vestursvæði Vegagerðarinnar sem nær yfir Vesturland og Vestfirði. „Það er með versta móti. Það eru náttúrulega mjög slæmir kaflar á öðrum svæðum en það eru langir vegkaflar sem eru á krítískum stað á þessu svæði.“

Í Dölunum hefur þurft að sæta færis og fara í framkvæmdir þegar veður leyfir. Enn eru allt að tíu dagar af vinnu eftir. Haukur vonast þó til að náist að ljúka framkvæmdum fyrir haustið. „Við krossleggjum fingur og vonum það besta bara.“

Heimild: Ruv.is