Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur samþykkt með fjórum atkvæðum að fela oddvita í samráði við lögmenn sveitarfélagsins að kæra virkjunarleyfi sem Orkustofnun hefur gefið út fyrir vindorkuverið Búrfellslund til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Þetta kemur fram í fundargerð sveitarfélagsins.
Bent er á, að Landsvirkjun hafi unnið að undirbúningi Búrfellslundar síðastliðin tólf ár, sem sé fyrsta vindorkuverið sem eigi að rísa á Íslandi.
Fram kemur í fundargerðinni, að Landsvirkjun hafi talið að það þurfi ekki að sækja um breytingar á skipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna Búrfellslundar, þar sem vindmyllurnar verði staðsettar í Rangárþingi ytra.
Búrfellslundur takmarki landnýtingu
„Þrátt fyrir það kemur skýrt fram, bæði í umhverfismatinu sem unnið var í hönnunarferli vindorkuversins og í áliti Skipulagsstofnunar að framkvæmdasvæðið sé bæði í Rangárþingi Ytra og í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Ljóst er að Búrfellslundur takmarkar landnýtingu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, vegna nálægðar við sveitarfélagið,“ segir í fundargerðinni.
Þá segir, að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafi mótmælt fyrirhuguðum Búrfellslundi á öllum stigum skipulagsferlisins og við fyrirhugaða veitingu Orkustofnunar á virkjunarleyfi vindorkuversins.
Aðför að skipulagsvaldi
„Sú staðreynd sem uppi er, að sveitarfélög geti sett í skipulag sitt vindorkuver á sveitarfélagamörkum sínum án samráðs við aðliggjandi sveitarfélög er aðför að skipulagsvaldi þeirra og takmarkar landnotkun á því svæði sem næst eru vindorkuverunum. Slík vinnubrögð eru óásættanleg og gríðarlega hættulegt fordæmi í komandi uppbyggingu vindorkuvera á Íslandi,“ segir í fundargerðinni.
Sveitarfélagið segir að stjórnvöld á Íslandi hafi boðað stefnumörkun um vindorkuver á landinu þar sem fram komi að ekki eigi að byggja vindorkuver innan miðhálendislínunnar.
„Staðsetning Búrfellslundar stríðir gegn þessari stefnumörkun þar sem hann er innan miðhálendislínunnar, við hliðina á Þjórsárdal þar sem er stærsta friðlýsing menningarminja, náttúru- og menningarlandslags á Íslandi. Vindorkuverið er jafnframt í nágrenni við gríðarlega uppbyggingu í ferðaþjónustu í Þjórsárdal,“ segir í fundargerðinni.
Heimild: Mbl.is