Home Fréttir Í fréttum Öllum starfsmönnum Vestfirskra verktaka sagt upp

Öllum starfsmönnum Vestfirskra verktaka sagt upp

69
0
Á föstudag sögðu Vestfirskir verktakar upp 27 starfsmönnum Mynd: ja.is

Á þriðja tug starfsmanna hjá Vestfirskum verktökum var sagt upp í síðustu viku. Skýringin er sögð slök verkefnastaða og breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins. Formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða hefur ekki náð í eigendur fyrirtækisins

<>

Vestfirskir verktakar er umsvifamikið fyrirtæki á Vestfjörðum og hefur meðal annars unnið að stórum verkefnum fyrir Vegagerðina. Nú síðast smíði tveggja brúa við Klettháls sem áætlað var að lyki um áramót.

27 starfsmönnum sagt upp 30. ágúst

Á föstudag sögðu Vestfirskir verktakar upp 27 starfsmönnum. Í viðtali við Bæjarins besta segir Garðar Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, ástæðuna einkum þá að verkefnastaðan væri ekki nógu góð og reksturinn þungur og því fylgdu skipulagsbreytingar.

Þá væru framundan breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins, eigendurnir tveir stefndu hvor í sína áttina og fyrirtækinu yrði skipt upp.

Verkalýðfélagið fengið takmarkaðar upplýsingar

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða, segir félagið hafa fengið tilkynningu frá fyrirtækinu 30. ágúst um uppsagnir 25 starfsmanna, auk tveggja eigenda.

Þetta sé stöðluð tilkynning þar sem hakað sé í rekstrarerfiðleika, endurskipulagningu og hráefnisskort. Þá komi fram að uppsagnarfrestur stafsfólks sé frá einum og upp í þrjá mánuði.

Finnbogi segist ekki hafa náð í eigendur fyrirtækisins og viti í raun ekkert meira en það sem fram komi í tilkyningunni. Það komi á óvart því samskiptin við Vestfirska verktaka hafi jafnan verið góð. Verkalýðsfélagið hafi boðið starfsfólkinu upp á fund til að ræða málin og veita þeim ráðgjöf, en engin viðbrögð hafi borist við því.

Heimild: Ruv.is