Home Fréttir Í fréttum Allt að 500 milljónir í fram­kvæmdir á Laugar­dals­velli

Allt að 500 milljónir í fram­kvæmdir á Laugar­dals­velli

107
0
Ásmundur Einar Daðason, Bjarni Benediktsson, Einar Þorsteinsson, Þorvaldur Örlygsson, Freyr Ólafsson, og Sigurður Ingi Jóhannsson við undirritun viljayfirlýsingar á Laugardalsvelli í dag. Ljósmynd: Aðsend mynd

Viljayfirlýsing um nýjan frjálsíþróttaleikvang og framkvæmdir á Laugardalsvelli var undirrituð í dag.

<>

Ríkissjóður og Reykjavíkurborg munu hvor um sig leggja allt að 250 milljónir króna til framkvæmda á Laugardalsvelli sem felast í að skipt verður út núverandi grasi á vellinum fyrir blandað gras (hybrid-gras) ásamt því að sett verður hitunarkerfi undir völlinn.

Þjóðarleikvangur ehf., sem er í eigu ríkisins, Reykjavíkurborgar og KSÍ, mun annast verkið.

Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins segir að góður árangur íslenskra landsliða og félagsliða í knattspyrnu hafi leitt til þess að spila þarf leiki í alþjóðlegri keppni allt árið um kring. Laugardalsvöllur sé sá leikvangur sem kemst næst því að uppfylla alþjóðlegar kröfur en hins vegar sé úrbóta þörf á honum.

Viljayfirlýsing um nýjan frjálsíþróttaleikvang

Samhliða því að tilkynnt var um ofangreinda framkvæmd þá undirrituðu fulltrúar ríkisstjórnarinnar, Reykjavíkurborgar, Knattspyrnufélags Íslands (KSÍ) og Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ) í dag viljayfirlýsingu um framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvanga fyrir knattspyrnu og frjálsíþróttir í Laugardal.

Viljayfirlýsingin var kynnt á blaðamannafundi í dag.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Með yfirlýsingunni er stefnt að uppbyggingu tveggja aðskilinna þjóðarleikvanga utanhúss í Laugardal, þar sem þegar er unnið að uppbyggingu þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir.

„Laugardalsvöllur yrði þannig byggður upp sem knattspyrnuvöllur eingöngu, þar sem mögulegt yrði að leika stærstan hluta ársins, en nýr þjóðarleikvangur í frjálsíþróttum risi á nýjum stað í Laugardal.”

Í tilkynningunni segir að með ákvörðun um notkun hybrid-grass á Laugardalsvelli sé þar með útilokuð keppni í kastgreinum frjálsíþrótta.

Því verður lagt kapp á að reisa nýjan þjóðarleikvang fyrir frjálsíþróttir og hrinda þeirri vinnu af stað eins fljótt og kostur er. Í því samhengi er m.a. horft til keppni á Smáþjóðameistaramóti á Íslandi 2028 sem og Smáþjóðaleika, fáum árum síðar.

Vinnan muni byggja á tillögum starfshóps mennta- og menningarmálaráðuneytisins um þjóðarleikvang í frjálsíþróttum frá árinu 2021.

Heimild: Vb.is