Bæjarráð Árborgar skorar á Vegagerðina og ÞG verktaka ehf. að ljúka samningum um smíði nýrrar Ölfusárbrúar án tafar.
Áskorun þessa efnis var samþykkt á bæjarráðsfundi í gær en þar segir að brýnt sé að brúarsmíðin hefjist því þjóðvegurinn í gegnum Selfoss anni ekki núverandi umferð.
„Langar raðir liggja daglega upp að hringtorgi við Biskupstungnabraut og meðfram Austurvegi, þar sem umferð er á leið í vesturátt. Ný Ölfusárbrú bætir umferðarflæði og umferðaröryggi í og við Selfoss,“ segir í áskorun bæjarráðs og það ítrekað að nauðsynlegt sé að framkvæmdir hefjist í haust.
Í vor sagðist Vegagerðin stefna að því að ljúka samningaviðræðum við verktaka fyrir lok maímánaðar. Ekkert hefur spurst til þeirrar vinnu síðan en að loknum ríkisstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra, í samtali við Vísi að niðurstaða ætti að fást í málið á næstu dögum.
Heimild: Sunnlenska.is