Home Fréttir Í fréttum Erfiðara fyrir leigusala að hækka leigu og segja upp samningi

Erfiðara fyrir leigusala að hækka leigu og segja upp samningi

58
0
RÚV – Birgir Þór Harðarson

Ný húsaleigulög taka gildi um mánaðamótin og hafa það að markmiði að bæta réttarstöðu leigjenda og auka húsnæðisöryggi. Hætt er við að þau leiði til samdráttar á leiguframboði.

<>

Ný húsaleigulög, sem samþykkt voru á þingi í júní, taka gildi þann 1. september. Lagabreytingarnar eiga að bæta réttarstöðu leigjenda og auka húsnæðisöryggi þeirra með því að auka fyrirsjáanleika að sögn Jónasar Atla Gunnarssonar, hagfræðings hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Stærstu breytingarnar fela í sér að óheimilt verður fyrir leigusala að vísitölutengja styttri samninga, uppfylla verður ákveðin skilyrði ef breyta á leigufjárhæð og að leigusala verður ekki heimilt að segja upp ótímabundnum samningi án rökstuðnings, auk þess að hann verði að kanna hvort leigjandi hyggist nýta forgangsrétt sinn.

Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur hjá HMS.
Aðsend

Hvati til að gera lengri tímabundna samninga
„Eins og staðan er núna þá eru margir samningar vísitölutengdir og leigjendur eiga erfitt með að átta sig á því hvað þeir borga í leigu og hvað þeir munu borga á næstu mánuðum. Hér erum við að bæta úr því,“ segir Jónas.

Markmiðið sé einnig að beina fólki í að gera lengri tímabundna samninga, eða jafnvel ótímabundna samninga.

Breytingar á leigufjárhæð háðar skilyrðum
Leigusalar og leigjendur geta óskað eftir breytingu á leiguverði að 12 mánuðum loknum frá undirritun samnings, í ákveðnum tilfellum.

Jónas segir að allar takmarkanir á hvernig leigusalar hátta samningum sínum geti vissulega dregið úr leiguframboði. „Það er áhættan, en það var lendingin með þessum lögum að þetta væru ekki breytingar sem myndu takmarka rétt þeirra um of, til þess að það yrði of erfitt fyrir þá að leigja út.“

Jónas áréttar að það séu engin ákvæði um leigubremsu eða leiguþak, heldur séu skilyrðin til þess fallin að breytingar á leigufjárhæð séu í samræmi við markaðsleigu.

Sérstakar ástæður ef segja á upp samningi
Fram að þessu hafa leigjendur með tímabundinn samning haft almennan forgangsrétt til áframhaldandi leigu á húsnæðinu að leigutíma loknum. Nú verður það á ábyrgð leigusala að kanna hvort leigjandinn hyggist nýta sér forgangsrétt sinn og hefur leigjandinn þrjátíu daga, frá því að hann er spurður, til þess að tilkynna leigusala um ákvörðun sína. Þá verða að liggja fyrir sérstakar ástæður til þess að segja upp ótímabundnum leigusamningi.

„Við munum auðvitað fylgjast mjög náið með því hvort það verði samdráttur á leiguframboði, en við vonum og teljum að það verði ekki mikið. Allavega ekki út af þessum lögum,“ segir Jónas.

Heimild: Ruv.is