Formaður Félags fasteignasala segir háa stýrivexti halda áfram að bíta húsnæðiseigendur. Margir kaupendur skuldsetji sig meira en áður og treysti því að vextirnir taki brátt að lækka.
Talsverð eftirspurn er eftir fasteignum á markaði þrátt fyrir háa stýrivexti. Formaður Félags fasteignasala segir kaupendur auka við sig skuldir og hafi væntingar um að vextir taki brátt að lækka á ný.
„Það er eftirspurnarþrýstingur í svona erfiðum aðstæðum sem segir okkur, eða það má eiginlega segja að markaðurinn sé í jafnvægi í dulargervi af því að ef aðstæðurnar væru betri á markaðnum þá væri þrýstingurinn enn þá meiri“, sagði Monika Hjálmtýsdóttir, formaður Félags fasteignasala, í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Spenna á markaðnum þrátt fyrir háa vexti í heilt ár
Hún segir ákveðna spennu á markaðnum þrátt fyrir háa stýrivexti en það skýrist fyrst og fremst af íbúðavöntun.
Kaupendur um þessar mundir eru aðallega þeir sem eru að skipta um húsnæði – fyrstu kaupendur sitja eftir og bíða eftir hagstæðari kjörum.
Hún segir fleiri taka verðtryggð lán, margir skuldsetji sig meira en áður og treysti því að stýrivextirnir, sem hafa haldist í 9,25 prósentum í tólf mánuði, taki brátt að lækka. Því megi búast við þenslu á markaðnum þegar það gerist
„Fólk er auðvitað að stækka við sig með því að skuldsetja sig af því það eru þessar væntingar sem hafa svo mikið að segja á markaðnum. Fólk væntir þess að ástandið muni batna, vextir lækka og fasteignaverð hækka.“
Heimild: Ruv.is