
Í dag var gengið frá samkomulagi um mestu framkvæmdir í miðbæ Hafnarfjarðar í áratugi. Alger bylting verður á í nýjum húsakosti bókasafns bæjarins, að sögn bæjarstjórans.

Hafnarfjarðarbær
Haldið var upp á það í dag að nýbygging við hlið verslunarmiðstöðvarinnar Fjörður er nú fokheld. Bæjarstjóri og verktakar skrifuðu undir samning um kaup Hafnarfjarðarbæjar á nýrri hæð fyrir bókasafn bæjarins fyrir 1,1 milljarð króna en auk þess verða átján hótelíbúðir og 31 almenn íbúð í byggingunni sem tengist eldri byggingu Fjarðar.
Á jarðhæð verður síðan verslunar- og þjónustuhúsnæði. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri segir framkvæmdina mikla lyftistöng fyrir miðbæinn.

Vísir/HMP
„Við erum hérna að ganga frá kaupum á nýju húsnæði fyrir Bókasafn Hafnarfjarðar. Sem er 102 ára gamalt og er merk menningarstofnun og mikilvægt í okkar samfélagi. Þessar breytingar verða bylting vil ég segja,“ sagði Rósa að lokinni undirritun samninga í reisugilli síðdegis.
Nýbyggingin tengist gamla Firði sem einnig muni fá mikla endurnýjun. Bókasafnið fari úr fjögurra hæða byggingu á eina hæð í nýju og glæsilegu húsi í hjarta miðbæjarins. Með þessu verði bókasafnið nútímavætt og þjónustan efld til muna og í takti við nútíma kröfur.

Hafnarfjarðarbær
„Við sjáum að nútíma bókasöfn eru orðin nokkurs konar þekkingar- eða margmiðlunarsetur. Þar sem fólk kemur til að njóta næðis, til að næra andann, til að vera saman og fá sér kaffisopa. Og ekki síst verður áhersla á mjög góða barnadeild. Við ætlum að leggja mikla áherslu á að fá börnin hingað með foreldrum sínum og öðrum,“ segir bæjarstjórinn.
Með þessu nýja húsi verði mikil breyting á miðbæ Hafnarfjarðar enda húsið á stórri lóð sem staðið hafi auð í áratugi.

Hafnarfjarðarbær
„Þetta er stærsta framkvæmd í miðbæ Hafnarfjarðar í áratugi. Hér verða íbúðir, nýtt verslunarrými, bókasafnið, hótel. Þetta verður alveg stórkostlegt og mun valda straumhvörfum vil ég segja fyrir okkur hér. Efla þjónustu og verslun og annað hérna í miðbænum. Þannig að við erum hæstánægð. Þetta er stór dagur,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir.
Heimild: Visir.is