Home Fréttir Í fréttum Hvalárvirkjun: Sótt formlega um vegabætur

Hvalárvirkjun: Sótt formlega um vegabætur

76
0
Ásbjörn Blöndal, stjórnarformaður VesturVerks, kynnti stöðu í undirbúningi Hvalárvirkjunar og næstu skref á íbúafundi í Árneshreppi. Mynd:aðsend.

Vesturverk ehf sem hyggst reisa vatnsaflsvirkjun í Hvalá í Árneshreppi sótti formlega 2. ágúst síðastliðinn í bréfi til Vegagerðarinnar um miklar vegabætur á veginum frá Veiðileysihálsi og norður í Ófeigsfjörð. Þetta kom fram á kynningarfundi Vesturverks með íbúum Árneshrepps sem haldinn var í gær.

<>

Þar kemur fram að gera þurfi verulegar endurbætur á veginum vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Efst á blaði er Veiðileysuháls og nýr vegur framhjá byggðinni í Djúpavík. Þá þarf að athuga burðarþol brúarinnar yfir Reykjafjarðará og bæta veginn við Selvíkurhöfða. Laga þarf vegin yfir hálsinn í Ingólfsfjörð og um fjörðinn.

Kynningarglæra Vesturverks.

Um þrjátíu manns sátu íbúafundinn auk fulltrúa Landsnets sem gerðu sömuleiðis grein fyrir undirbúningi fyrir tengingu virkjunarinnar við flutningskerfið.

Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks og HS Orku sagði í samtali við Bæjarins besta að sér þótti takast ágætlega til með fundinn.

„Góðar umræður sköpuðust og þótt skiptar skoðanir verði ávallt um svo stórar framkvæmdir leggjum við höfuðáherslu á að upplýsa íbúa og gefa þeim kost á koma spurningum og vangaveltum á framfæri sem hugsanlega geta haft áhrif á framvindu verkefnisins og betrumbætt það. Okkur er fyrst og síðast annt um að vinna að þessu verkefni í samvinnu og sátt við nærsamfélagið.“

Það væri sömuleiðis jákvætt að Landsnet og VesturVerk munu stilla saman strengi í þessu verkefni og samræma sem mest má tímalínur og framkvæmd.

Heimild: BB.is