Fyrstu kaupendur íbúðarhúsnæðis eiga enn erfiðara um vik en áður að komast inn á fasteignamarkaðinn. Á sama tíma standa einstaklingar og fjölskyldur frammi fyrir þröngum kostum á leigumarkaði.
Í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem kom út á föstudag eru tekin dæmi sem sýna að vegna hærri vaxta, hærra íbúðaverðs og þrengri lánaskilyrða þurfa fyrstu kaupendur íbúða að hafa mun hærri tekjur en fyrir fáum árum til að ráða við afborganir af húsnæðislánum.
Nauðsynlegar tekjur fyrstu kaupenda til þess að geta staðið straum af verðtryggðum lánaafborgunum fyrir meðalíbúð eru nú rúmlega 70% hærri en þær voru í byrjun árs 2020. Á sama tíma hefur launavísitalan hækkað um 43%.
Vegna reglna Seðlabankans frá því í september 2021 mega afborganir af lánum fyrstu kaupenda ekki fara yfir 40% af ráðstöfunartekjum þeirra. „Nauðsynlegar mánaðartekjur fyrstu kaupenda til að eiga efni á afborgunum af 30 ára verðtryggðu húsnæðisláni á meðalíbúð með 85% veðsetningarhlutfalli námu því 1,1 milljón króna í júlí 2024.
Til samanburðar hefðu fyrstu kaupendur einungis þurft að hafa 630 þúsund krónur í mánaðartekjur [í ársbyrjun 2020] til þess að geta staðið straum af afborgunum af sams konar húsnæðisláni á meðalíbúð með sömu greiðslubyrði,“ segir í skýrslu HMS.
Mánaðarleg greiðslubyrði af 30 ára verðtryggðu láni á meðalíbúð hækkaði úr 177 þúsund krónum í janúar 2020 í 295 þúsund krónur í júlí sl. eða um 67%. Greiðslubyrði 30 ára óverðtryggðs láns á meðalíbúð hefur hækkað úr 217 þúsund krónum í 564 þúsund krónur eða um 160% á tímabilinu.
Meira í laugardagsblaði Morgunblaðsins.
Heimild: Mbl.is