Stefnt er á að taka á móti nemendum í nýjum Kársnesskóla haustið 2025 – tveimur árum seinna en gert var ráð fyrir. Niðurstöður gerðardóms ættu að liggja fyrir á næstu dögum.
Áfram tefjast framkvæmdir við byggingu nýs Kársnesskóla í Kópavogi. Skólinn, sem átti að verða tilbúinn í maí 2023, verður ekki tekinn í notkun fyrr en haustið 2025.
Saga nýs Kársnesskóla teygir sig aftur til ársins 2017 þegar gamla skólahúsið var rýmt vegna myglu og svo rifið. Framkvæmdir við nýju bygginguna hófust árið 2021 og var það ítalska verktakafyrirtækið Rizzani de Eccher sem annaðist verkið. Þegar gallar uppgötvuðust rifti Kópavogsbær samningum við ítalska verktakann.
Vonir stóðu til að hægt væri að hefja kennslu um áramótin en Ásthildur Helgadóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs Kópavogsbæjar, segir ljóst að það náist ekki. „Núna kom í ljós að ytra byrði útveggja var í verra ástandi en haldið var þannig það þurfti að meðhöndla þá veggi aftur og það er tímafrek vinna.“ Þá var líka reynt að laga álgluggakerfi sem lak „en það kom í ljós að það þarf að skipta því út og það tekst ekki að framleiða nýtt álgluggakerfi fyrir áramót,“ segir Ásthildur.
Kostnaður liggur enn ekki fyrir
Stefnt er á að hefja skólahald í skólanum haustið 2025. Kostnaðaráætlun bæjarins fyrir verkið hljóðaði upp á rúma 3,6 milljarða og er þetta dýrasta framkvæmd sem Kópavogsbær hefur ráðist í. Ekki liggur fyrir hve hár kostnaðurinn verður þegar upp er staðið.
Enn er beðið eftir niðurstöðum gerðardóms þar sem úr því verður skorið hvort riftun samningsins hafi verið lögmæt. Það ætti að liggja fyrir á næstu tveimur vikum. „Svo í framhaldinu verður kröfugerð um að fá tjónið bætt sem er auðvitað ómögulegt að spá til um en vonandi verður það Kópavogsbæ í hag en auðvitað er þetta tjón fyrir alla aðila.“
Heimild: Ruv.is