Skipulagsstofnun staðfestir ekki tillögur sveitarstjórnar Ölfuss um landfyllingu úti fyrir strandlengju bæjarins. Landfyllingin hefur verið þrætuepli. Brimbrettafélag Íslands telur landfylinguna eyðileggja ölduna við bæinn.
Skipulagsstofnun staðfesti ekki breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins Ölfuss vegna umdeildrar landfyllingar úti fyrir strönd Þorlákshafnar. Þar af leiðandi er ekki hægt að hefja framkvæmdir við landfyllinguna fyrr en Ölfus hefur unnið málið betur með Skipulagsstofnun.
Brimbrettafélag Íslands vill meina að landfyllingin eyðileggi ölduna sem þar er og hefur barist fyrir því að hún verði ekki gerð. Gagnrýni félagsins hefur verið mikil og hávær og fjallaði enska blaðið The Guardian meðal annars um hana í fyrra.
Fjölþætt gagnrýni Skipulagsstofnunar
Eitt af því sem stofnunin bendir á í svarbréfi sínu til sveitarfélagsins, sem dagsett er 19. ágúst, er að ekki hafi verið skoðaðir fleiri valkostir en þessi á meðan málið var í undirbúningi. Þar segir meðal annars orðrétt:
„Í umhverfisskýrslu aðalskipulagsbreytingar kemur fram að ekki hafi verið bornir saman fleiri valkostir en breytt tillaga og ,,núllkostur“, þar sem fyllingin sé ætluð til að þjónusta Suðurvararbryggju.“
Stofnunin vill að Ölfus færi rök fyrir því af hverju einmitt þessi staðsetning á landfyllingunni er valin. Í bréfinu segir: „Með hliðsjón af því að í athugasemdum er bent á aðra valkosti varðandi útfærslu m.a. í athugasemd Vegagerðar þá beinir
Skipulagsstofnun því til sveitarstjórnar að bregðast með skýrum hætti við þessum ábendingum og þannig að færa rök fyrir þeim valkosti sem settur er fram í skipulagstillögunni.“
Stofnunin gagnrýnir einnig þá staðhæfingu Ölfuss að framkvæmdin sé ekki háð umhverfismati. Skipulagsstofnun telur einmitt að framkvæmdin sé tilkynningarskyld til stofnunarinnar. Í bréfinu segir um þetta:
„Stofnunin telur því fullt tilefni til að ítreka fyrri ábendingar um að framkvæmdir á svæðinu eru tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um það hvort þær þurfi að undirgangast mat á umhverfisáhrifum.“
Elliði: Áfram unnið að málinu
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, segir í sms-skilaboðum til RÚV að áfram verði unnið að málinu í samvinnu við Skipulagsstofnun og að fundað verði með stofnuninni á næstunni. Bæjarstjórinn segir að sveitarfélagið muni „einfaldlega funda með Skipulagsstofnun og vinna áfram með þeim til að tryggja rétta verkferla.“
Hann segir það ekki vonbrigði að Skipulagsstofnun hafi ekki samþykkt breytinguna á aðalskipulagi sem Ölfus óskaði eftir til að geta gert landfyllinguna. „Þetta eru ekki vonbrigði á nokkurn máta.
Bara eitt af þessum eðlilegu stjórnsýslumálum sem fylgja viðamikilli uppbyggingu. […] Hlutverk Skipulagsstofnunar er að koma með athugasemdir og okkar að vinna með þeim að framgangi. Þetta er bara nákvæmlega það sem við erum að gera í svoa mörgum málum.“
Heimild: Ruv.is