Fagkaup, sem er í jafnri eigu hjónanna Boga Þórs og Lindu, heldur áfram að stækka gegnum yfirtökur og samruna.
Verslunarsamstæðan Fagkaup ehf., sem á m.a. Johan Rönning, Sindra og Áltak, hefur komist að samkomulagi um kaup á Jóhanni Ólafssyni & Co. ehf.
Samkeppniseftirlitið hefur nú samrunatilkynningu félaganna til skoðunar.
Jóhann Ólafsson & Co., sem sérhæfir sig í þjónustu og sölu á ljósaperum og lýsingarbúnaði, tapaði 25,4 milljónum króna í fyrra samkvæmt ársreikningi.
Rekstrartekjur voru 578 milljónir króna og eigið fé var 89,6 milljónir í árslok 2023.
Fagkaup, sem er í jafnri eigu Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur, hefur verið í mikilli útrás á síðustu árum. Félagið hefur keypt yfir tíu fyrirtæki frá stofnun.
Johan Rönning var fyrsta fyrirtækið sem hjónin festu kaup á árið 2003 en óhætt er að segja að umsvifin hafi aukist umtalsvert frá þeim tíma. Fyrsta starfsárið var veltan um 1,2 milljarðar en velta samstæðunnar árið 2022 var yfir 20 milljarðar.
Tveimur árum eftir kaupin á Johann Rönning keypti félagið Sindra Stál áður en félagið fjárfesti í rafbúnaðarheildsölunni S. Guðjónsson skömmu síðar. Alls keyptu hjónin um sjö fyrirtæki á 14 ára tímabili frá stofnun.
Árið 2022 keypti Fagkaup meðal annars BG Fossberg, móðurfélag sérverslunarinnar Fossbergs sem selur iðnaðarvörur og verkfæri. Kaupverð Fossbergs í viðskiptunum var ekki gefið upp, en eigið fé félagsins nam 3,6 milljörðum króna í lok árs 2020.
Fagkaup keypti málmsmíðafyrirtækið Hagblikk sama ár ásamt Heildverslun Ísleifs Jónssonar.
Hagnaður Fagskaupa árið 2022 nam 2,1 milljarði króna og var eigið fé 3,6 milljarðar.
Heimild: Vb.is