Home Fréttir Í fréttum Hafa á­hyggjur af því að hraun muni ná inn fyrir varnar­garða

Hafa á­hyggjur af því að hraun muni ná inn fyrir varnar­garða

62
0
Hraunið úr mögulegu eldgosi á næstunni gæti náð yfir varnargarðana. Vísir/Vilhelm

Tilefni er til þess að hafa áhyggjur af því að hraun geti náð inn fyrir varnargarða við Grindavík í næsta eldgosi. Veðurstofan hefur uppfært hættumat vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga, sem er óbreytt frá síðustu viku.

<>

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Áfram eru miklar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni, og skjálftavirkni vex dag frá degi. Skýr merki séu um að þrýstingur sé að aukast á svæðinu.

Þá segir að hraun geti náð inn fyrir varnargarðana.

„Þannig er möguleiki á að hraun sem kæmi upp úr gosopi norðan varnargarða ofan bæjarins geti leitað ofan í sprungukerfi sunnan Hagafells og leitt hraunstraum inn fyrir bæjarmörkin. Þá er ekki hægt að útiloka að gossprunga geti opnast inn í Grindavík,“ segir í tilkynningunni.

Mæla alls ekki með því að fólk dvelji í bænum

Lögreglustjórinn tekur skýrt fram að Grindavík er ekki staður fyrir barnafólk eða börn að leik, og mælir alls ekki með því að íbúar dvelji í bænum. Þá er svæðið austan Víkurbrautar og norðan Austurvegar merkt með óásættanlegri áhættu og tilmæli frá lögreglustjóra eru að enginn dvelji þar að næturlagi.

Hér sést svæðið þar sem talin er óásættanleg áhætta.
Lögreglan á Suðurnesjum

Fáir kjósa að dvelja í bænum næturlangt, en dvalið var í 22 húsum síðastliðna nótt.

Grindavík er lokuð öllum öðrum en viðbragðsaðilum, íbúum bæjarins, starfsmönnum Grindavíkurbæjar, fyrirtækja, verktökum og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa.

Heimild: Visir.is