Home Fréttir Í fréttum Ríkið tekur á sig þriðjung rekstarkostnaðar Strætó og Miklabraut verður sett í...

Ríkið tekur á sig þriðjung rekstarkostnaðar Strætó og Miklabraut verður sett í jarðgöng

44
0
Mynd úr tillögum verkfræðistofunnar Eflu af útfærslu jarðganga fyrir Miklubraut. Vefsíða Reykjavíkurborgar – EFLA

Margt er til bóta í uppfærðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins að mati formanns umhverfis- og samgöngunefndar. Gert er ráð fyrir að Miklabraut fari í jarðgöng.

<>

Ríkið tekur á sig þriðjung rekstrarkostnaðar Strætó samkvæmt endurnýjuðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Þetta herma heimildir fréttastofu. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fékk kynningu á sáttmálanum síðdegis.

Samkvæmt uppfærðum sáttmála hefur framkvæmdatíminn lengst úr fimmtán árum í tuttugu og tvö og kostnaður er nú áætlaður 310 milljarðar í stað 160 milljarða. Þá er samkvæmt heimildum fréttastofu gert ráð fyrir að ríkið taki á sig þriðjung kostnaðar af rekstri Strætó, samhliða því sem verklokum við borgarlínu seinki, og að göng verði gerð fyrir Miklubraut.

Bjarni Jónsson formaður umhverfis- og samgöngu­nefndar Alþingis segir margt horfa til bóta í uppfærðum sáttmála.

„Til dæmis miklu betra utanumhald um áætlanagerð, kostnaðargreiningar og stjórnskipulag svona í kringum, bara að halda utan um verkefni hvers er hvað og slíkt sem að skiptir miklu máli og er að skerpa sýn fyrir þessar almenningssamgöngur hér og fyrir allt svæðið þannig að þetta er bara á margan hátt spennandi.“

Hann segir nefndarmenn hafa skipst á skoðunum á fundinum, í stórum dráttum sé samkomulag um markmið en ágreiningur um forgangsröðun.

„En það er gott að hafa allavega fastara land fyrir fótum og við höfum kallað eftir því að fá þetta uppfært og það liggur núna fyrir og verður kynnt á morgun.“

Langur aðdragandi
Það var fyrst tilkynnt um miðjan mars í fyrra að sáttmálinn yrði uppfærður. Upphaflega átti endurskoðuninni að ljúka í fyrrasumar, svo var stefnt á að klára uppfærsluna fyrir áramót og í janúar var talað um að uppfærður sáttmáli væri innan seilingar. Einar Þorsteinsson borgarstjóri er ánægður með niðurstöðuna en viðurkennir að endurskoðunin hafi tekið langan tíma.

„En það hillir undir undirritun og það verður gleðilegt að ná því saman. Ég held að það sé að stefna í mjög ásættanlega niðurstöðu fyrir alla þá sem að málinu koma og verði mikið framfaraskref fyrir höfuðborgarsvæðið allt.“

Heimild: Ruv.is