Home Fréttir Í fréttum Lands­virkjun skrefi nær því að reisa fyrsta vindorku­verið

Lands­virkjun skrefi nær því að reisa fyrsta vindorku­verið

33
0
Tölvuteikning af fyrirhuguðum virkjanakosti. LANDSVIRKJUN

Orkustofnun veitti í dag virkjunarleyfi fyrir vindorkuverið Búrfellslund við Vaðöldu í Rangárþingi ytra. Landsvirkjun hyggst þar byggja upp fyrsta vindorkuver landsins. Gert er ráð fyrir að 28 til 30 vindmyllur ríki sunnan Sultartangastíflu á 17 ferkílómetra svæði og uppsett afl verði um 120 megavött.

<>

Í framhaldi af afgreiðslu virkjanaleyfisins hyggst Landsvirkjun sækja um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar Rangárþings ytra. Í júlí gengu Landsnet og Landsvirkjun frá samningi um að tengja fyrirhugað vindorkuver inn á raforkuflutningskerfið. Var sá samningur forsenda fyrir afgreiðslu Orkustofunar á virkjunarleyfi.

Kort af leyfissvæðinu.
ORKUSTOFNUN

Nú er svo unnið að því að klára samning um lands- og vindorkuréttindi við ríkið, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Vindorkuvinnslan við Búrfellslund var sett í nýtingarflokk rammaáætlunar árið 2022 og gera áætlanir Landsvirkjunar fyrir því að vindmyllurnar verði farnar að skila rafmagni inn á raforkukerfið fyrir lok árs 2026. Landsvirkjun auglýsti útboð fyrir vindmyllurnar sem þar á að reisa snemma á þessu ári.

„Jarðtæknirannsóknir sem hófust í vor hafa gengið vel og er gert ráð fyrir að þeim ljúki í haust. Allur undirbúningur hefur því gengið að óskum,“ segir í tilkynningu Landsvirkjunar.

Skeiða- og Gnúpverjahreppur mótmælti umsókninni
Fram kemur í gögnum Orkustofnunar að umsögn hafi borist um virkjanaleyfisumsóknina frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem fyrirætlununum var mótmælt.

Í umsögn Skeiða- og Gnúpverjahrepps var því haldið fram að stjórnvöldum væri óheimilt að veita leyfi fyrir virkjunarkostinum, þar sem sveitarfélagið hafði tilkynnt Skipulagsstofnun um frestun ákvörðunar um landnotkun á grundvelli laga um verndar- og orkunýtingaráætlun.

Var það mat sveitarfélagsins að fara bæri með virkjunarkostinn sem hann væri í biðflokki samkvæmt fyrrnefndu ákvæði laganna, en ekki nýtingaflokki. Landsvirkjun og Orkustofnun voru ósammála þessari túlkun og var leyfið því afgreitt.

Að sögn Orkustofnunar eru ekki neinar áætlanir um landnýtingu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi fyrir umræddan virkjunarkost og þar af leiðandi engar skipulagsáætlanir á vegum sveitarfélagsins vegna virkjunarinnar nauðsynlegar.

Tilhögun Búrfellslundar hafi verið breytt með þingsályktun og umsókn Landsvirkjunar um virkjunarkostinn byggi á tilhögun sem sé að öllu leyti innan Rangárþings ytra.

Heimild: Visir.is