Home Fréttir Í fréttum Úrskurðarnefnd klofnaði vegna efnistöku úr Búrfellshólma

Úrskurðarnefnd klofnaði vegna efnistöku úr Búrfellshólma

101
0

Framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr Búrfellshólma í Þjórsárdal hefur verið fellt úr gildi. Formaður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er ósammála úrskurði nefndarinnar.

<>

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr Búrfellshólma í tilraunaskyni fyrir allt að fimmtíu þúsund rúmmetra. Félagið Náttúrugrið kærði ákvörðunina til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem tók málið til efnismeðferðar.

Framkvæmdaleyfi vegna vikurnáms á Hekluhafi austan við Búrfell rann út fyrir fjórum árum. Það var gefið út árið 2000 til tuttugu ára og var áætluð efnistaka á gildistímanum 80 til 140 þúsund rúmmetrar á ári.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps rökstuddi ákvörðun sína um endurupptöku framkvæmdaleyfisins með því að þetta væri áframhaldandi nýting á svæði sem skilgreint er sem efnistökusvæði í aðalskipulagi og hafi þegar sætt umhverfismati.

Á þetta féllst úrskurðarnefndin ekki. Í úrskurðinum segir að undirbúningur ákvörðunarinnar hafi ekki verið nógu vandaður. Meðal annars hafi skort fullnægjandi rökstuðning fyrir því að fyrri úrskurður og umhverfismat þeirrar framkvæmdar næði yfir fyrirhugaðar framkvæmdir. Skoða hefði þurft hvort tilkynna ætti um áformin til Skipulagsstofnunar sem nýja eða breytta framkvæmd. Nefndin taldi því ekki hjá því komist að fella leyfið úr gildi.

Arnór Snæbjörnsson, sem er formaður nefndarinnar, skilaði séráliti vegna málsins. Þar segir hann að hið nýja leyfi hafi kveðið á um framkvæmdir mun minni í sniðum en þær sem umhverfismatið fjallaði um. Hinar nýju framkvæmdir hefðu ekki falið í sér aukið álag á umhverfið og ættu því ekki að kalla á nýja málsmeðferð.

Heimild: Ruv.is