Home Fréttir Í fréttum Eðli­legt að setja hálfan milljarð í fram­kvæmdir í Grinda­vík

Eðli­legt að setja hálfan milljarð í fram­kvæmdir í Grinda­vík

42
0
Gunnar Einarsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Garðabæj, á sæti í nefndinni ásamt þeim Guðnýju Sverrisdóttur og Árna Þór Sigurðsson sem gegnir formennsku.

Nefndarmaður í framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavík segir eðlilegt að verja hundruðum milljóna til að verja innviði í bænum þrátt fyrir yfirvofandi eldgos. Það sé eðlilegt framhald af fyrri aðgerðum á borð við uppsetningu varnargarða.

<>

Framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ kynnti aðgerðaráætlun vegna viðgerða á götum og lögnum, kaupum á girðingum til að girða af ótrygg svæði, jarðkönnunarverkefni og áhættumat.

„Við erum að undirbúa framkvæmdir þarna í þessum töluðu orðum og förum af stað um leið og áhættumatið segir okkur að við getum farið af stað,“ segir Gunnar Einarsson sem situr í framkvæmdanefndinni.

Aðgerðirnar eru sagðar mikilvægar til að stuðla að öflugu atvinnulífi og öruggu samfélagi í Grindavíkurbæ eftir því sem aðstæður leyfa. Áætlunin miðist við að eldgos sé ekki í gangi og ekki sé unnið að framkvæmdum á meðan frekari jarðhræringar eru yfirvofandi líkt og nú.

Heildarkostnaður vegna aðgerðanna er áætlaður 470 milljónir króna þar sem 440 milljónir koma frá ríkinu og 30 milljónir frá Grindavíkurbæ.

Talið er að eldgos geti hafist hvenær sem er á allra næstu dögum á svæðinu í kringum Grindavík. Gunnar var spurður að því í kvöldfréttum Stöðvar 2 hvort hreinlega tæki því að setja þessar aðgerðir á oddinn.

„Já, það er mjög mikilvægt að við höldum innviðunum við og þeir drabbist ekki niður. Þessi aðgerðaráætlun miðar að því að við aukum öryggi íbúanna og greiðum leið þeirra sem eru að fara um svæðið. Ég segi já við því,“ segir Gunnar.

„Það getur vel verið að við þurfum að grípa til enn frekari aðgerðar. En að gera ekki neitt er ekki í boði. Ríkisstjórnin hefur sett verulega fjármuni í að verja Grindavík með varnargörðum og aðgerðum. Þannig að það er eðlilegt að við höldum öllum þessum innviðum við.“

Heimild: Visir.is