Home Fréttir Í fréttum HMS ræðst í átak vegna fjölda bruna við þakpappalagningu

HMS ræðst í átak vegna fjölda bruna við þakpappalagningu

45
0
Stórbruni varð í Kringlunni þegar verktakar lögðu þakpappa. Altjón varð á tíu verslunum. RÚV – Bragi Valgeirsson

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vill að fagaðilar sæki námskeið og vinni sér inn réttindi til að leggja þakpappa. Fjöldi eldsvoða hefur komið upp við þakpappalagningu undanfarin misseri, nú síðast í Kringlunni.

<>

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur hafið undirbúning fræðsluátaks um lagningu á þakpappa vegna fjölda eldsvoða sem upp hafa komið undanfarin ár. Til stendur að koma á fót fræðslu fyrir iðnaðarmenn sem vinna við þakpappalagningu.

Regína Valdimarsdóttir, framkvæmdastjóri brunavarnasviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, segir að ferlið hafi verið í undirbúningi í nokkurn tíma, en að atburðir líkt og stórbruninn í Kringlunni hafi hreyft við ferlinu.

„Þetta er í raun og veru til komið eftir eldsvoðann í Kringlunni og aðra sambærilega eldsvoða sem hafa borið að þar á undan. Markmiðið er í raun og veru að útbúa leiðbeiningablað fyrir fagaðila til að fræða þá um hvernig skuli standa að lagningu á þakpappa og að réttri aðferðafræði sé beitt við slíka vinnu,“ segir Regína.

Vill breyta regluverki svo réttindi þurfi til þakpappalagningar
„Bæði horfum við til þess að veita frekari fræðslu og upplýsingar til þess að ná til sem flestra fagaðila á þessu sviði en jafnframt teljum við mikilvægt að haldin verði námskeið fyrir fagaðila.

Svo í þriðja lagi horfum við til þess að það þurfi að skoða einhverjar breytingar á regluverkinu sem mæla fyrir um að aðilar sem koma að þessari vinnu hafi réttindi til þess að sinna þessu, en það er vinna sem þarf að eiga sér stað í samstarfi við ráðuneytið.“

Heimild: Ruv.is