Home Fréttir Í fréttum Nýju húsin við Austurbrú á Akureyri – Dýrar íbúðir en einstakar

Nýju húsin við Austurbrú á Akureyri – Dýrar íbúðir en einstakar

64
0
Fyrstu íbúðirnar í nýju húsunum við Austurbrú eru komnar í sölu. Mynd: pollurinn.is

Fyrstu íbúðirnar í nýju húsunum við Austurbrú fóru í sölu í sumarbyrjun. Íbúðirnar eru í dýrari kantinum miðað við að um fjölbýli sé að ræða en á sama tíma eru þær einstakar vegna nálægðarinnar við miðbæinn og náttúrunnar við Pollinn.

<>

Vaxandi áhugi á því að búa í miðbæ
Nýju húsin við Austurbrú hafa fengið mikla athygli enda ómögulegt annað fyrir hvern þann sem á annað borð er á ferð um Akureyri að taka ekki eftir þeim.

Fasteignasalinn Björn Guðmundsson, hjá fasteignasölunni Byggð, segir að Akureyringar hafi vissulega haft miklar skoðanir á uppbyggingunni á Drottningarbrautarreitnum, en honum finnst fólk almennt vera mun jákvæðara gagnvart nýju húsunum en þeim fyrstu sem þar byggðust.

„Ég held að það sé að miklu leyti vegna þess að það er vaxandi áhugi fyrir þessu búsetuformi og þá er miðbærinn líka að festa sig í sessi sem staður þar sem fólk vill búa,“ segir Björn og bætir við að fólk sem kaupir íbúð í húsunum 10-18 við Austurbrú sé ekki bara að kaupa íbúð í blokk heldur að kaupa sig inn í samfélag með fallegu útisvæði í 300 m fjarlægð frá göngugötunni á Akureyri.

„Þessar íbúðir eru eiginlega eins og sumarhús í miðbænum þar sem náttúran flæðir inn um alla glugga en samt er öll þjónusta miðbæjarins í göngufæri. Fyrir þá sem vilja lifa miðbæjarlífi þá eru þessar íbúðir fullkomnar,“ segir Björn.

Tölvugerð mynd af reitnum eins og hann mun líta út þegar hótelið er risið. Mynd: Pollurinn.is

Dýrar íbúðir á dýru byggingarlandi
Alls er um að ræða 63 íbúðir í fimm húsnúmerum og er rúmlega helmingur þeirra kominn í sölu. Nú þegar er búið að ganga frá átta kaupsamningum og skrifa undir þrjá aðra og fyrsti íbúinn er fluttur inn. Íbúðirnar eru mjög ólíkar, bæði hvað stærð og uppbyggingu varðar, en þó eru ákveðin líkindi í þeim öllum.

Fyrst ber að nefna gott skipulag þar sem hver fermetri er vel nýttur. Þannig eru svefnherbergin höfð frekar lítil en alrýmið stærra. Þá koma þær allar með öllum innréttingum. Það eina sem kaupendur þurfa að ákveða er gólfefnið á alrými og herbergjum.

Undantekning eru þó íbúðirnar á efstu hæðunum, þar hafa kaupendur frjálsari hendur varðandi val á loftaklæðningar, innréttingar o.fl.

Ódýrustu íbúðirnar, tveggja herbergja íbúðir á jarðhæð, eru á 57 milljónir en þær dýrustu eru á 140 milljónir. „Já þetta eru dýrar íbúðir enda eru þær á miðbæjarsvæði og þetta er dýrt byggingarland, það skýrir verðlagið að einhverju leyti,“ segir Björn. Þá hífa lyftur og flennistór bílakjallari sem er undir öllum húsunum með alls 63 stæðum einnig upp verðið.

Útsýnið til vesturs er á kirkjuna og Sigurhæðir. Björn og Ólafur fasteignasalar á Byggð ráða hér ráðum sínum en Byggð er með íbúðirnar á sinni söluskrá. Mynd: Snæfríður Ingadóttir

Verkalýðsfélög búin að kaupa orlofsíbúðir
Þó íbúðirnar séu tiltölulega nýfarnar á sölu segir Björn að áhuginn sé töluverður. Aðspurður út í áhyggjur margra heimamanna í þá veru að í húsunum verði einungis orlofsíbúðir, segir Björn þær áhyggjur vera óþarfar.

„Þetta er mjög blandaður hópur sem hefur sýnt þessum íbúðum áhuga. Ég sé fyrir mér að margir Akureyringar sem eru að fara úr stórum húsum og vilja minnka við sig vilji koma hingað.

Svo hafa verkalýðsfélögin einnig keypt hér nokkar íbúðir,” segir Björn og bætir við að þessar orlofsíbúðir verkalýðsfélaganna séu allar í sama stigagangi. „Þetta verða engin draugahús þar sem ljósin verða alltaf slökkt, það er alveg á hreinu.“

Dagsbirtan fær að njóta sín í íbúðunum með gólfsíðum gluggum og svalarhandriðum úr gleri.

Þú þarft engin málverk á veggina hérna því þú ert með þetta fallega málverk út um gluggann.

Spegilsléttur Pollurinn og Vaðlaheiðin í allri sinni dýrð. Útsýnið úr íbúðunum er sérlega skemmtilegt.

Útsýnið ekki amalegt
Eins og áður segir þá er sérstaða íbúðanna fyrst og fremst staðsetningin. Gólfsíðir gluggar og svalir með glerhandriðum gera það að verkum að íbúðirnar verða sérlega bjartar og umhverfið og dagsbirtan flæða óhindrað inn.

„Þú þarft engin málverk á veggina hérna því þú ert með þetta fallega málverk út um gluggann,” segir Björn og bendir á Vaðlaheiðina sem er aldrei eins.

Á öllum íbúðunum eru svalir eða útgengi út í garð og á sumum þeirra eru allt upp fimm útgangar. Eftir því hvernig íbúðirnar snúa þá er útsýnið annaðhvort út eða inn fjörðinn, á Vaðlaheiðina eða á Akureyrarkirkju og Sigurhæðir.

Íbúðirnar afhendast án gólfefna en með innréttingum. Tæki í eldhúsi; ísskápur, uppþvottavél og eldavél fylgja líka með.

„Þetta er náttúrulega bara alveg einstakt, náttúran og lífið hér við Pollinn. Maður verður ekki leiður á þessu útsýni. Og ef maður nennir ekki að elda þá verða bara nokkur skref á nýja hótelið sem verið er að byggja hér á horninu,“ segir Björn og slær botninn í þetta spjall með því að bæta við að um einstakt tækifæri sé að ræða því miðað við núverandi skipulag eru ekki fleiri lóðir í boði svona nálægt Pollinum.

Heimild: Akureyri.net