Grettir Rúnarsson, framkvæmdastjóri Heklubyggðar, segir áformað að hefja framkvæmdir við Skíðaskálann í Hveradölum þegar breytingar á deiliskipulagi hafa verið samþykktar.
Fjallað var um áformin í Morgunblaðinu síðastliðinn fimmtudag en Grettir vinnur að þessu verkefni ásamt eiginkonu sinni, Ólöfu Ástu Guðmundsdóttur, og fjölskyldu.
Til stendur að bjóða upp á margvíslega afþreyingu á svæðinu, þar með talið skíðabrekkur, hlaupa- og hjólaleiðir og heilsulind með leirböðum.
Þurfti ekki í umhverfismat
„Deiliskipulagið var samþykkt í fyrrahaust að undangengnu umhverfismati. Eftir að deiliskipulagið var samþykkt ákváðum við að bæta við hótelinu. Það var úrskurðað að hótelið þyrfti ekki að fara í umhverfismat og er það nú í deiliskipulagsferli hjá sveitarfélaginu,“ segir Grettir en áformað er að reisa 150 herbergja hótel skáhallt á móti Skíðaskálanum.
Grettir segir jafnframt standa til að reisa um 500 fermetra viðbyggingu við Skíðaskálann sem verði blanda af gróðurhúsi og veitingastað. Hluti hennar verði nýttur undir skíðabar, eða svonefndan Après-ski-bar upp á frönsku, sem muni snúa að skíðasvæðinu.
Skíðabrekkurnar verði nothæfar allt árið um kring með því að leggja plast- og gúmmímottur í brekkurnar. Dæmi um slíka aðstöðu sé Copenhill-skíðabrekkan en hún er á hallandi þaki orkuvers í Amager í Kaupmannahöfn.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem út kom á laugardag, 3. ágúst.
Heimild: Mbl.is