Home Fréttir Í fréttum Vegagerð setið á hakanum of lengi

Vegagerð setið á hakanum of lengi

69
0
Sigurður Ingi Jóhannsson er fjármála- og efnahagsráðherra. RÚV – Fréttagrafík/Kristrún Eyjólfsdóttir

Þungaflutningar leiða af sér slit á vegum sem enginn sá fyrir á sínum tíma, segir innviðaráðherra um ástandið á vegakerfinu. Fjármálaráðherra segir að tryggja þurfi nægar tekjur til að standa undir vaxandi útgjöldum. Vegakerfið hafi setið á hakanum.

<>

Meira fjármagn þarf í vegakerfið til að standa undir vaxandi útgjöldum. Fjármagn mætti sækja hjá stórnotendum þess.

Vegakerfið hér á landi er komið til ára sinna. Vegagerðin hefur ítrekað sagt að viðhaldi vega sé verulega ábótavant og þörf sé á styrkingu og breikkun þeirra um allt land. Meira en helmingur burðarlaga vega í landinu er eldri en tuttugu ára.

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að dýrt hafi verið að lenda í bankahruninu á sínum tíma og að of lítið hafi verið gert í vegamálum í of langan tíma.

„Þetta eru eftirköst af því að gera of lítið í of mörg ár og á sama tíma sem umferðin og hagvöxturinn á Íslandi jókst mjög mikið og þarf af leiðandi álagið á vegina.“

Ríkisstjórnin hafi meira en tvöfaldað og allt að þrefaldað fjármuni til viðhalds vega á þeim sjö árum sem hún hafi verið við völd.

„Meira þarf til og við þurfum líka að gefa okkur tíma til þess að ná því fram á einhverjum árum, ekki í einhverju átaki aftur heldur horfa til lengri tíma. Eitt af því sem við erum að vinna núna er þessi breyting á gjaldtöku í umferðinni til þess að tryggja til lengri tíma nægar tekjur til að standa undir vaxandi útgjöldum, sem við þurfum að fara í.“

Í mjög langri skuld við samfélagið
Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra, tekur undir með Sigurði Inga og segir þurfa miklu meira fjármagn, bæði í framkvæmdir og viðhald á vegum. Það fjármagn gæti komið frá stórnotendum.

„Þetta þungaflutningarálag er að leiða af sér slit á vegum sem enginn sá fyrir fyrir áratug eða tveimur, og við þurfum að fjármagna þetta betur. Kannski þurfum við líka að vera hugrakkari í að sækja fjármuni til þeirra sem valda þessu sliti, sem eru auðvitað þessir stóru atvinnurekendur sem eiga auðvitað að borga sinn skerf.“

Samgönguinnviðir séu æðakerfi landsins.

„Við erum í mjög langri skuld við samfélagið varðandi þessa samgönguinnviði. Við þurfum að gera miklu betur ef við ætlum að vera í takti við nútímann og ef við ætlum að tryggja jöfnuð óháð búsetu.“

Svandís ætlar að taka vegakerfið fyrir á komandi þingvetri. „Við þurfum að gera betur í því að leggja meira af mörkum inn í samgöngur og ég mun leggjast á þær árar.“

Heimild: Ruv.is