Viðgerðir standa nú yfir á Hringveginum austan við ána Skálm, en hann fór í sundur í gær eftir stórt jökulhlaup úr Mýrdalsjökli.
Vegurinn milli Víkur og Eldvatns er enn lokaður en stefnt er að því að opna hann eftir klukkan 20 í kvöld. Eingöngu verður hægt að hafa eina akrein opna og verður umferð því stjórnað á vettvangi. Hjáleið er um Fjallabak nyrðra en sá vegur er einungis fær vel útbúnum bílum.
Strax í morgunsárið var hafist handa við að keyra efni í skarðið sem myndaðist þegar vegurinn rofnaði í gær og gengur sú vinna vel.
Ekki var hægt að hefja vinnuna fyrr en sjatnaði í ánni Skálm. Einnig urðu miklar skemmdir á um 700 metra vegkafla, þar sem vegurinn er verulega laskaður eftir flóðið. Vegna þessa verður einungis hægt að opna fyrir umferð á einbreiðum kafla þegar þar að kemur.
Vegfarendum er bent á að fylgjast með upplýsingum á umferdin.is
Heimild: Vegagerdin.is