Home Fréttir Í fréttum Endurbætur á nýjum leikskóla hlaupa á tugum milljóna

Endurbætur á nýjum leikskóla hlaupa á tugum milljóna

127
0
Ólöf Örvarsdóttir er sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar. RÚV – Víðir Hólm

Endurbætur á leikskólanum Brákarborg, sem opnaði fyrir tveimur árum í nýju húsnæði, hlaupa sennilega á tugum milljóna. Sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg segir ljóst að pottur sé brotinn einhvers staðar í kerfinu.

<>

Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir endurbætum á leikskólanum Brákarborg á Kleppsvegi sem hlaupa sennilega á tugum milljóna króna. Leikskólinn hóf starfsemi í húsinu fyrir tæpum tveimur árum.

Framkvæmdir upp á rúman milljarð
Leikskólinn Brákarborg flutti í nýbyggt húsnæði við Kleppsveg 150 til 152, þar sem kynlífstækjabúðin Adam og Eva var áður til húsa, haustið 2022. Kostnaður við byggingu leikskólans við Kleppsveg var tæplega 1,3 milljarðar króna.

Leikskólinn fékk umhverfisverðlaunin Græna skóflan, fyrst allra mannvirkja, haustið 2022. Verðlaunin eru veitt fyrir mannvirki sem hefur verið byggt með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum.

Nú tæpum tveimur árum síðar er búið að loka leikskólanum tímabundið. Starfsfólk og börn snúa því ekki aftur þangað eftir sumarfrí heldur fara í bráðabirgðahúsnæði í Ármúla.

Þakið of þungt
Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, segir sprungur hafa uppgötvast í veggjum leikskólans.

„Og þá kemur í ljós að það eru gallar í byggingunni, eitthvað varðandi þyngdina á þakinu, og það þarf þá að styrkja líka veggi innanhúss sem gerir það að verkum að það er ekki að uppfylla gildandi staðla hvað varðar burð.“

Þannig að við bara drifum okkur í að taka torfið og erum að vinna að því að skoða hvar og hvernig á að styrkja og sá undirbúningur er í gangi. Þannig að hérna eru bara hafnar framkvæmdir.“

Kostnaður hleypur sennilega á tugum milljóna
Í formlegu bréfi skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar til allra verktaka og ráðgjafa sem komu að byggingu leikskólans er þeim tilkynnt um mögulega hönnunar- og/eða byggingagalla. Ólöf segir borgina ætla að skoða hvar ábyrgðin liggur.

„Við erum auðvitað með ákveðna ferla og ákveðið kerfi, þar sem er virkt eftirlit með uppbyggingunni. Framkvæmd þarf að vera í samræmi við teikningar. Það þarf að skoða hvort það sé þannig.“

Torf sem er búið að fjarlægja af þaki leikskólans.
RÚV / Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir

Þannig að það er ljóst að það er pottur brotinn?

„Já það er það, það er ljóst og við þurfum að skoða hvar og hvernig það gerðist og hvernig við beitum okkur í framhaldinu.“

Hver er kostnaðurinn við þessar aðgerðir?

„Við vitum það auðvitað ekki enn þá vegna þess að við fórum auðvitað bara strax af stað í framkvæmdir. En það getur hlaupið á tugum milljóna.“

„Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er ekki auðvelt fyrir neinn“

Börnin hefja skólaárið í bráðabirgðahúsnæði í Ármúla. Það átti að hefjast 8. ágúst en nú er stefnt að því að hefja það 12. ágúst.

Aðspurð segist Ólöf ekki geta svarað því nákvæmlega hvenær börnin geti snúið aftur í leikskólann á Kleppsveg

„Ég vil ekki koma með einhverja ákveðna dagsetningu strax.“

Endurbætur á húsnæðinu á Kleppsvegi hafi hafist strax en Ólöf segir borgina leggja ofuráherslu á að börnin komi aftur á leikskólann sinn. „Við erum að gera Ármúlan eins góðan og hægt er, á eins stuttum tíma og hægt er, þannig að það fari vel um börnin þar. En þetta verða auðvitað einhverjir mánuðir. Ég þori ekki alveg að segja hversu langur tími, vonandi sem styðstur.“

Leikskólinn er lokaður meðan verið er að laga húsnæðið sem var þó aðeins tekið í notkun fyrir tæpum tveimur árum.
RÚV / Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir

Foreldrar eru margir hverjir ósáttir með ákvörðun borgarinnar að flytja starfsemi leikskólans í skrifstofuhúsnæði í Ármúla. Foreldri eins barns sagði, í frétt á Vísi í gær, að húsnæðið væri óboðlegt leikskólabörnum.

Ólöf segir Skóla- og frístundasvið vera í samskiptum við foreldra.

„Við höfum auðvitað séð hvað foreldrar eru að segja í fjölmiðlum og þetta er auðvitað álag fyrir öll. Það hefur verið mannekla í leikskólum víða og þetta er auðvitað viðkvæmur hópur. Þannig að við gerum okkur grein fyrir því að þetta er ekki auðvelt fyrir neinn.“

Heimild: Ruv.is