Home Fréttir Í fréttum „Okkur þykir mjög miður að þetta hafi gerst“

„Okkur þykir mjög miður að þetta hafi gerst“

104
0
Það er ekki mikið sem eftir stendur af gamla frystihúsinu á Kirkjusandi, sem síðast hýsti starfsemi Íslandsbanka. VÍSIR/SIGURJÓN

Verkefnastjóri segir miður að steypuryk frá niðurrifsframkvæmdum á Kirkjusandi hafi fokið yfir íbúðahverfi í Laugarnesi. Auka hefur þurft öryggisgæslu á svæðinu eftir að í ljós kom að fólk hefur farið inn á svæðið í leyfisleysi.

<>

Verktaki hefur samkvæmt samningi til loka október til að ljúka niðurrifi gamla Íslandsbankahússins á Kirkjusandi, en gert er ráð fyrir að verkinu verði lokið nokkrum vikum fyrr.

„Við eigum eftir að brjóta niður núna þetta litla sem eftir er af húsinu og síðan botnplötuna og það sem er eftir hérna undir og hreinsa síðan allt svæðið í burtu. Þannig þetta gengur ágætlega,“ segir Samúel Guðmundsson, verkefnastjóri og eigandi Dynju sem annast verkefnið.

Samúel Guðmundsson, verkefnastjóri framkvæmdanna og eigandi Dynju.
VÍSIR/SIGURJÓN

Eitthvað hefur borið á því í sumar að ryk frá niðurrifsframkvæmdunum á Kirkjusandi hafi fokið yfir bíla og hús í Laugarneshverfi, íbúum til nokkurs ama. Myndin hér að neðan er tekin 17. júní en á henni má sjá hvernig ryk leggur frá framkvæmdasvæðinu og í átt yfir hverfið.

„Það kom einu sinni fyrir hjá okkur að það var vatnslaust hérna á svæðinu, vantaði vatn, og við stöðvuðum þá framkvæmdir í tvígang út af því,“ segir Samúel, en vatn er notað til að draga úr útbreiðslu ryks frá framkvæmdunum.

Þessa mynd fékk fréttastofa senda frá íbúa í hverfinu en hún er tekin á þjóðhátíðardaginn, 17. júní 2024.
AÐSEND

Hann ítrekar að engin spilliefni á borð við asbest séu eftir í húsinu, það hafi verið hreinsað út áður en byggingin var innréttuð fyrir Íslandsbanka á sínum tíma. Þá hafi verið gerðar sérstakar ráðstafanir vegna myglu sem í því var. Aðstandendur framkvæmdarinnar séu í góðu samtali við byggingarfulltrúa, heilbrigðisyfirvöld og aðra til að tryggja að allt sé í samræmi við kröfur og vandað sé til verka.

„Það hefur komið ryk frá vélunum en þær eru búnar sérstökum búnaði, vatnsbúnaði, sem á að bleyta steypuna þannig að rykið komi ekki. Það var vandamál hérna á mánudaginn síðasta þar sem var mikil hvöss vestanátt sem gerði það að verkum að vatnið fauk frá. Þannig að þess vegna kannski var meira ryk en hefur verið undanfarnar vikur,“ útskýrir Samúel.

Spurður hvort þetta kalli ekki á breytt verklag eða að framkvæmdir séu stöðvaðar segir hann að erfitt sé að koma alfarið í veg fyrir ryk. „Það er mjög erfitt að koma í veg fyrir að svona ryk gerist. Það er eiginlega engin önnur leið þegar maður er að brjóta niður svona hús annað en að það komi ryk frá því og það er mjög erfitt stoppa þetta hundrað prósent. En því miður þá er það ekki hægt og okkur þykir mjög miður að þetta hafi gerst,“ svarar Samúel.

Hann segir ekki útilokað að áfram verði eitthvað um ryk þar til framkvæmdum líkur. „Vonandi í miklu minna mæli þegar við förum að brjóta niður botnplötuna. Þar erum við fyrst og fremst að brjóta, þannig að við eigum ekki von á því að það komi mikið ryk þá en það verður þá kannski frekar hávaðamengun sem gæti komið þá.“

Öryggisgæsla var hert eftir að farið var inn á svæðið í óleyfi og veggir byggingarinnar skreyttar.
VÍSIR/SIGURJÓN

Veggjalistamenn í óleyfi á svæðinu
Athygli vekur einnig nýleg veggjalist sem sjá má á innveggjum þess sem eftir stendur af byggingunni.

„Við höfum verið með öryggisverði hér á svæðinu til að tryggja að það sé ekki óviðkomandi á leiðinni hérna inn á svæðið. Þetta gerðist á meðan við vorum að undirbúa rifið. Þetta er virkilega hættulegt og við höfum brugðist við því með því að auka verulega öryggisvakt,“ segir Samúel.

Heimild: Visir.is