„Við erum alla vega búnir að setja verkefni á ís. Út af vöxtum aðallega,“ segir Pálmar Harðarson, framkvæmdastjóri byggingafyrirtækisins Þingvangs, er hann er spurður um stöðu byggingaverkefna hjá fyrirtækinu á árinu.
Í nýrri mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem birt var á miðvikudag kemur fram að aukning hafi orðið í innflutningi byggingarhráefna hér á landi.
Segir í skýrslunni að innflutningurinn hafi vaxið hratt síðastliðið rúmt ár eftir að hafa dregist saman frá miðju ári 2022. Þá sé erfitt að dæma þróun á innflutningi út frá mánaðarlegum gildum vegna sveiflna.
„Ef horft er á leitni hefur innflutningur hins vegar aukist um 14% miðað við verðmæti innflutnings og um fjórðung í magni miðað við maí 2023 sé miðað við þriggja mánaða meðaltal af árstíðaleiðréttu gildi,“ segir enn fremur í skýrslunni.
Gætu verið forunnin hús
Morgunblaðið sló á þráðinn til Pálmars til að spyrjast fyrir um hvort vöxtur á innflutningi þýddi að byggingafyrirtæki væru á leið í meiri framkvæmdir en Pálmar segir svo ekki vera hjá Þingvangi. Nefnir hann að vöxtur í innflutningi byggingarhráefna geti mögulega verið vegna innflutnings tilbúinna húsa. Þeim fylgi mun minni vinna hjá verktakafyrirtækjunum.
„Kannski skýrist þetta af því að það er mikill innflutningur á tilbúnum húsum. Menn eru að selja módelhús sem eru forunnin hús. Húsasmiðjan og fleiri eru að moka þessu út og það fylgir þessu lítil vinna fyrir okkur,“ segir Pálmar og bætir við:
„Mér gæti helst dottið það í hug að þessi innflutningur á efni sé aukning í tilbúnum húsum eða einingum eða módelum.“
Hótel liggi tilbúið
Kveðst Pálmar þá einnig hafa heyrt að hótel Radison Red, sem á að rísa í Reykjavík, liggi nú meira og minna tilbúið við höfnina í Þorlákshöfn í stáleiningum.
„Þannig að það eru alls konar svona hlutir að gerast og þetta er 13 hæða bygging. Ekki eitthvert stakt hús eða sumarbústaður,“ segir Pálmar að endingu.
Heimild: Mbl.is