
Starfsmenn á vegum Ístaks stóðu í ströngu í fyrradag og í gær þegar þeir steyptu fyrri hluta brúar yfir Hornafjarðarfljót. Reiknað er með að hinn hlutinn verði steyptur eftir um þrjá mánuði. Samtals tóku um 90 manns þátt í að koma steypu í mótin.
Umfangsmiklar vegaframkvæmdir hafa staðið yfir í Hornafirði þar sem fjórar brýr eru í smíðum samtímis. Með tilkomu þeirra styttist hringvegurinn um tólf kílómetra. Heildarkostnaður er um níu milljarðar króna.

Ístak – Aron Örn Karlsson / Ístak
Brúin yfir Hornafjarðarfljót verður um 250 metra löng þegar hún verður fullkláruð. Áfanginn sem steyptur var í gær er rúmlega 140 metrar. Vinna hófst klukkan 14:00 í fyrradag og lauk um miðjan dag í gær, rúmlega sólarhring síðar. Aron Örn Karlsson, staðarstjóri Ístaks í Hornafirði, sagði í samtali við fréttastofu í gær að vinnan hefði gengið samkvæmt áætlun.
Heimild: Ruv.is