Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi „Þetta er bara steypuryk“

„Þetta er bara steypuryk“

63
0
Niðurrif gamla Íslandsbankahússins við Kirkjusand er langt komið og eru áætluð verklok í haust. mbl.is/Arnþór

„Þetta er bara steypuryk, þetta er bara ekk­ert annað en steypuryk,“ seg­ir Samú­el Guðmunds­son um rykið sem sest hef­ur á bíla íbúa í ná­grenni við niðurrifs­svæði á Kirkju­sandi.

<>

Fyr­ir­tæki hans, Dynja ehf., hef­ur um­sjón með niðurrif­inu á gamla Íslands­banka­hús­inu, áður Sam­bands­hús­inu, við Kirkju­sand 2.

Ekk­ert asbest í hús­inu
Samú­el seg­ir að ekk­ert asbest sé í hús­inu sem verið sé að rífa, það efni hafi verið fjar­lægt úr hús­næðinu fyr­ir mörg­um árum.

„Asbest var tekið út úr hús­inu þegar inn­réttað var fyr­ir Íslands­banka fyr­ir mörg­um árum. Það var allt fjar­lægt fyr­ir löngu og það er búið að fara yfir það með vinnu­eft­ir­liti og heil­brigðis­eft­ir­liti og slíku, það er ekk­ert asbest í þessu,“ seg­ir Samú­el

Á vef Vinnu­eft­ir­lits­ins seg­ir að asbest hafi verið notað sem bruna­varn­ar­efni, hita­ein­angr­un og við iðnað og sé hættu­legt heilsu. Notk­un þess í dag er bönnuð á Evr­ópska efna­hags­svæðinu.

Verklok áætluð fyrr en bú­ist var við
Spurður um áætluð verklok seg­ir Samú­el að sam­kvæmt verk­samn­ingi við verk­taka séu verklok áætluð 30. októ­ber næst­kom­andi. Fram­kvæmd­ir hafi hins veg­ar gengið bet­ur en áætlað var og er nú bú­ist við að verklok verði mánuði fyrr en verk­samn­ing­ur ger­ir ráð fyr­ir.

Ómögu­legt að koma í veg fyr­ir ryk­meng­un
Vegna kvört­un­ar íbúa um ryk­meng­un sem sest meðal ann­ars á bíla þeirra seg­ir Samú­el að verið sé að reyna að lág­marka ryk­meng­un eins mikið og hægt er. „Við erum meðvitaðir um kvart­an­ir frá íbú­um vegna ryks við niðurrifið. Vél­ar verk­taka eru bún­ar vatnsúðakerfi til að lág­marka ryk­meng­un eins og til­skilið er fyr­ir rif á stein­steypu,“ seg­ir Samú­el.

„Ekki er mögu­legt að koma að fullu í veg fyr­ir ryk­meng­un frá fram­kvæmd­um sem þess­um,“ seg­ir hann og bæt­ir við að verkið sé unnið í góðu sam­bandi við bygg­ing­ar­yf­ir­völd, vinnu- og heil­brigðis­eft­ir­lit.

„Nokkuð hvass vest­an­vind­ur var í gær á verkstað og því hef­ur ryk ef­laust borist meira um svæðið þess vegna,“ seg­ir Samú­el.

Heimild: Mbl.is