Home Fréttir Í fréttum Sjá fyrir endann á tvö­földun Reykja­nes­brautar að flug­stöð

Sjá fyrir endann á tvö­földun Reykja­nes­brautar að flug­stöð

57
0
G. Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar. VÍSIR/EINAR

Hringtorg víkja fyrir mislægum gatnamótum á Reykjanesbrautinni til að stuðla að öryggi íbúa og vegfarenda. Með fyrirhuguðum framkvæmdum verður brautin tvöfölduð frá höfuðborgarsvæðinu og alla leið að Keflavíkurflugvelli.

<>

Til stendur að ráðast í tvöföldun Reykjanesbrautarinnar frá Fitjum í Reykjanesbæ og að hringtorginu við Keflavíkurflugvöll á næstu árum.

Stuðlar að öryggi

G. Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar, segir að í stað hringtorga á Reykjanesbrautinni komi mislæg gatnamót sem munu stuðla að öryggi á veginum.

„Þýðingin er mikilvæg, hún er fyrst og fremst varðandi umferðaröryggi. Bæði öryggi vegfarendanna og íbúanna því hér hyggjast menn í Reykjanesbæ byggja meira upp hérna sitt hvoru megin við Reykjanesbrautina.“

Ýmislegt þurfi að koma til

Vegagerðin hefur skilað af sér matsáætlun um verkefnið fyrir umhverfismat en um er að ræða tvöföldun á Reykjanesbrautinni á um fimm kílómetra kafla. G. Pétur segir að ýmislegt þurfi að koma til svo að verkefnið verði að veruleika.

„Eins og fjárveitingar eru núna eru settar í þetta af samgönguáætlun, sem á eftir að samþykkja á Alþingi, fjórir milljarðar á öðru tímabili samgönguáætlunarinnar en það dugir ekki fyrir framkvæmdinni og mislægum gatnamótum þannig líklega þurfum við að áfangaskipta þessu.“

Framkvæmdum ljúki fyrr en ætlað var

Vinna við síðasta kafla framkvæmda við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar frá Höfuðborgarsvæðinu og að Fitjum er nú vel á veg komin en áætluð verklok eru í júní 2026. Pétur segir framkvæmdirnar ganga vonum framar og að þeim verði jafnvel lokið fyrr en ætlað var.

„Nú sjáum alveg fyrir endann á tvöföldun alla leið að flugstöð“

Heimild: Visir.is