Home Fréttir Í fréttum Viljayfirlýsing um uppbyggingu Sementsreits á Akranesi undirrituð

Viljayfirlýsing um uppbyggingu Sementsreits á Akranesi undirrituð

67
0
Haraldur Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Willum Þór Þórsson við undirritunina.

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, undirrituðu í gær ásamt Haraldi Benediktssyni, bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, viljayfirlýsingu um fyrirhugaða uppbyggingu Sementsreits á Akranesi fyrir starfsemi ríkis og sveitarfélagsins.

<>

Jafnframt var undirritað afsal vegna sölu á núverandi húsnæðis við Mánabraut 20 til sveitarfélagsins sem áður hýsti skrifstofur Sementsverksmiðjunnar og var í sameiginlegri eigu ríkisins og Akraneskaupstaðar. Eigninni hefur nú verið afsalað að fullu til sveitarfélagsins.

Fyrir liggur að komið er að miklu viðhaldi á eigninni og að hún þarfnast gagngerrar endurnýjunar en stefnt er að því að á Sementsreitnum rísi bygging sem rúmar ráðhús Akraneskaupstaðar og stofnanir á vegum þess.

Þá liggur fyrir að þörf er á að finna nýja skrifstofuaðstöðu fyrir stofnanir ríkisins sem eru með aðsetur á Akranesi og lýsir ríkið yfir áhuga á að leigja aðstöðu í nýrri byggingu við Mánabraut 20. Í forsendum verkefnisins verður jafnframt skoðað hvort fýsilegt séð að koma starfsemi heilsugæslunnar fyrir í því húsnæði sem reist verður á reitnum.

Forsenda þess að af verkefninu verði er að Akraneskaupstað og ríkinu bjóðist ásættanlegt leiguverð í nýju húsnæði. Stefnt er að því að Akraneskaupstaður, í samráði við Framkvæmdasýslu – Ríkiseignir (FSRE), standi að útboði um uppbyggingu á lóðinni við Mánabraut 20 þar sem lögð verður áhersla á að lágmarka kostnað sveitarfélagsins og leiguverð til stofnana ríkisins.

Settur verður á fót sameiginlegur starfshópur sem mun vinna að framgangi verkefnisins auk þarfa- og kostnaðargreiningu.

Heimild: Stjórnarráðið