Home Fréttir Í fréttum „Ótrúlega spennandi“ fyrir nemendur að Tækniskólinn fái nýtt líf

„Ótrúlega spennandi“ fyrir nemendur að Tækniskólinn fái nýtt líf

25
0
Eva Karen Jóhannsdóttir, forseti Nemendafélags Tækniskólans. Bragi Valgeirsson

Nýr Tækniskóli rís í Hafnarfirði eftir fjögur til fimm ár. Samkomulag undirritað í gær. Forseti nemendafélagsins er spennt fyrir breytingunni, margt sé úrelt í gamla skólanum.

<>

Tækniskólinn er núna í átta byggingum á fimm stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt nýju samkomulagi sem var undirritað í gær verður breyting þar á. Ný 30 þúsund fermetra skólabygging fyrir þrjú þúsund nemendur á að rísa við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði við hliðina á húsi Hafrannsóknastofnunar.

Nýja byggingin á að rísa á þessari lóð.
Víðir Hólm

„Þetta mun kosta á þriðja tug milljarða,“ segir Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans

„Ég er mjög spennt fyrir þessu og ég er mjög áhugasöm um að sjá þessa byggingu rísa. Það hefur alltaf verið pínu vesen að flakka á milli bygginga eins og úr Hafnafirðinum og í miðbæinn,“ segir Eva Karen Jóhannsdóttir, forseti Nemendafélags Tækniskólans.

„Pípulagnir var bara það sem stóð mest upp úr fyrir mér. Mér fannst þetta mesta vinnan með höndunum. Og það er svo mikil nákvæmni falin í þessu. Og ég er með pínu nákvæmniáráttu,“ segir Eva Karen.

Pípulagningar eru kenndar í Hafnarfirði. Eva Karen segir að þar sé hægt að bæta margt.

„Umhverfið er mjög dautt. Húsgögn úrelt. Námsbækur úreltar. En þetta verður bara ótrúlega spennandi að sjá nýtt líf í Tækniskólanum.“

Eva Karen Jóhannsdóttir, forseti Nemendafélags Tækniskólans.
Bragi Valgeirsson

Hvenær á þetta að verða að veruleika? „Bjartsýn plön eftir fjögur ár, en alls ekki lengra en fimm ár,“ segir Hildur.

Tækniskólinn er löngu sprunginn. Árlega er mörg hundruð nemendum synjað um skólavist vegna mikillar aðsóknar og í ár er engin breyting á því.

„Ég bind bara miklar vonir við að við getum fjölgað í millitíðinni áður en við förum í nýtt húsnæði. Það er alltaf hægt að finna leiðir,“ segir Hildur.

Eva Karen lærir pírarann í Tækniskólanum.
Bragi Valgeirsson

Fjórir strákar voru innritaðir á móti hverri stelpu í Tækniskólann í haust. Eva Karen segist finna fyrir því að það halli á konur í stéttinni.

„Ég held að það sé kannski ein eða tvær aðrar konur á öllu þessu byggingasvæði sem við erum á núna,“ segir Eva Karen.

„Maður hefur stundum fengið einhver skítakomment þegar fólk heldur að maður viti ekkert hvað maður er að gera. Þá svarar maður bara fyrir sjálfan sig sko.“

Heimild: Ruv.is