Home Fréttir Í fréttum Stefna á 500 nýjar íbúðir í Grafarvogi

Stefna á 500 nýjar íbúðir í Grafarvogi

51
0
Einar Þorsteinsson segist ekki stefnt á háhýsabyggð í Grafarvoginum, byggðarmynstrinu verður fylgt eftir. RÚV – Haraldur Páll Bergþórsson

Borgarstjóri Reykjavíkur kynnti í gær áætlanir um uppbyggingu á fimm hundruð húsum í Grafarvogi á næstu árum. Stefnt er á að þétta úthverfi borgarinnar á næstu árum í húsnæðisátaki borgarinnar.

<>

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, kynnti í gær niðurstöður átakshóps um húsnæðismál. Þar er skoðað hvar hægt er að þétta byggð í úthverfum borgarinnar, það er Breiðholti, Grafarholti, Úlfarsárdal og svo Grafarvogi, þar sem kynningarfundurinn fór fram.

Minni lóðir
„Ég setti á fót átakshóp í húsnæðismálum strax þegar ég tók við og hann er að skila núna tillögum sem hann hefur unnið samhliða öðrum verkefnum við að hraða allri uppbyggingu. Við byrjum hér í Grafarvogi og fjölgum lóðum, minni lóðum fyrir smærri verktaka með það að markmiði að reisa einbýlishús, parhús, litlar blokkir og lítil fjölbýlishús,“ útskýrir Einar Þorsteinsson borgarstjóri Reykjavíkur.

Borgarstjórinn leggur áherslu á að uppbygging hverfisins verði í samræmi við núverandi byggð og að hún sé í góðri sátt við íbúa.

Þétting úthverfa
„Samtals gætu þetta orðið um 500 íbúðir en skipulagsferlið er fram undan. Ef vel gengur getum við sett fyrstu lóðirnar í sölu, snemma á næsta ári,“ segir Einar.

Þetta er aðeins fyrsta skrefið í þéttingu úthverfa borgarinnar að sögn Einars og að mörgu að huga.

„ Já, við erum að byrja að rýna önnur hverfi líka. En við byrjum hérna í Grafarvoginum, því hér er mesta rýmið í skólunum, leik- og grunnskólunum,“ útskýrir hann og bætir við: Það skiptir máli ef við ætlum að fjölga íbúum einhvers staðar í borginni, að innviðirnir geti tekið við nýjum íbúum.“

Engin háhýsi
Einar býst svo við að halda áfram þróun á lóðaframboði í næstu hverfum.

„Við þurfum að vinna þetta í sátt og samlyndi við íbúana og lykilatriði er að áformin um uppbygginguna eru ekki einhver háhýsi sem eru allt öðruvísi en Grafarvogurinn er. Við þurfum bara að byggja eftir byggðamynstrinu sem er hérna,“ segir hann að lokum.

Heimild: Ruv.is